Írskir sægarpar í heimsókn


Valgeir Sigurðsson fyrir utan Hafnarkaffi.

Þetta er vinsælt myndefni.

 

Gestir boðnir velkomnir.

Fleyið.

Ef eitthvert veitingahús í Siglufirði má kallast alþjóðlegt er það Hafnarkaffi eða Harbour House Café eins og það heitir upp á engilsaxneska tungu. Þar stendur hinn góðkunni Valgeir Sigurðsson ötull vaktina og ræðir málin af áhuga við gesti sína af ýmsu þjóðerni. Þegar fréttamann bar að garði skartaði flaggstöng hússins alls tólf fánum sem blöktu í hægum vindinum. Þeir merkja: OPIDFRAKL10 (opið frá kl. 10).

Inni fyrir sátu m.a. tveir írskir veðurbarðir sjógarpar og biðu eftir góðu leiði til Húsavíkur fyrir glæsilega skútu. Þetta voru Sam Davis og Phillip Jordan frá Strangford Lough á Norður-Írlandi, en það er bær rétt sunnan við Belfast. Ferðin yfir til Íslands hafði tekið þá sex og hálfan sólarhring og var fyrsti áfangastaður Vestmannaeyjar. Þaðan var siglt til Grindavíkur, Reykjavíkur, Patreksfjarðar, Ísafjarðar, Fljótavíkur, Hornvíkur og loks til Siglufjarðar. Frá Húsavík ætla þeir félagar austur fyrir land. Síðasta höfnin verður Djúpivogur áður en lagt verður til Færeyja og Skotlands og þaðan heim.

Tom og Phillip slappa af við kaffisopa og matarbita í hinum glæsilegu húsakynnum og taka púlsinn á veðri og fréttum.

Ef veður er skaplegt ráðgera þeir að komast á leiðarenda eftir tvær vikur eða svo. Þeir höfðu aldrei komið til Íslands áður en létu mjög vel af dvöl sinni hér. Þriðji áhafnarmeðlimurinn, Tom, þurfti að fljúga til baka fyrir nokkrum dögum og nær því ekki að halda þessari ævintýraför áfram siglandi.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is