Innri höfnin dýpkuð

Undanfarið hefur verið unnið að dýpkun innri hafnarinnar í Siglufirði.

„Já, við erum komnir hingað fyrir tilstuðlan Selvíkur ehf. og höfum verið að dýpka í kringum nýja hótelið þannig að Steini Vigg gæti legið við það,“ segir Bergþór Jóhannsson, talsmaður hafnfirska fyrirtækisins sem um framkvæmdina sér. „Auk þess er búið að dýpka meðfram bryggjunni framan við Síldarminjasafnið, þannig að þar ættu smábátar að geta lagst að. Við höfum verið í fæði hjá snilldarkokkum á Kaffi Rauðku sem sjá um að halda okkur gangandi auk þess sem Birgir Guðnason vélamaður sem starfað hefur hjá okkur í yfir 30 ár og býr hjá syni sínum fær víst ekki síðra fæði þar á bæ. Það er ánægjulegt að sjá hvað vel gengur og fallegt er hér á Siglufirði. Eftir að hafa verið hér þó ekki nema í skamman tíma skynjar maður að hér er enn eitt ævintýrið að hefjast.“

Í fyrradag var svo byrjað á að dýpka smábátahöfnina.

Myndin hér fyrir ofan og sú fyrir neðan voru teknar 6. þessa mánaðar.

Dýpkunarpramminn er losaður utarlega í firðinum.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]