In memoriam


Mikilli sögu lauk á dögunum þegar Arion banki yfirtók Sparisjóð Siglufjarðar. Hann var formlega stofnaður 1. janúar árið 1873 og var elsta starfandi peningastofnun á Íslandi þegar yfir lauk.

Hvernig þetta nákvæmlega gekk fyrir sig á sínum tíma er ekki með öllu vitað, en ljóst að Snorri Pálsson (1840-1883) faktor, sem kallaður hefur verið afi Siglufjarðar, er þar í lykilhlutverki. Hinir voru sr. Jón Auðunn Blöndal (1825-1878), þá verslunarstjóri í Grafarósi, Sveinn Sveinsson (1809-1873), óðalsbóndi í Haganesi, Einar Baldvin Guðmundsson (1841-1910), óðalsbóndi á Hraunum í Fljótum, Páll Þorvaldsson (1824-1881), óðalsbóndi á Dalabæ, Jón Jónsson (1810-1888), óðalsbóndi á Siglunesi, og að endingu tveir heimamenn aðrir, Jóhann Jónsson (1830-1896), óðalsbóndi og hreppstjóri, búandi í Höfn, og sr. Tómas Bjarnarson (1841-1929), þáverandi sóknarprestur á Siglufirði.

Á bak við þennan gjörning, hina breiðu fylkingu, er djúp hugsun, því landsvæðið er víðfeðmt og með því reynt að búa sjóðnum traustari grundvöll en ella væri.

Unnið var að málinu árið 1872, lög samin og annað þess háttar, og 1. janúar 1873 opnaði Sparnaðarsjóðurinn í Siglufirði. Fyrstu innlagnir eru þó ekki dagsettar fyrr en 11. janúar. Þær eru frá alls 15 einstaklingum, þar sem fyrst er Kristrún Friðbjörnsdóttir á Hraunum í Fljótum, þá skráð „vinnukona” á 17. ári.

Í 1. gr. laga sparisjóðsins segir m.a.: „Frá 1. degi janúarmánaðar 1873 er stofnaður sparnaðarsjóður á Siglufirði, og fé veitt móttöku í hann, annaðhvort í peningum eða gjaldgengum verzlunarvörum, sem ekki má nema minni upphæð en 1rdl (einum ríkisdal) í hvert skipti.“ Og í 2. gr.: „Aðaltilgangur sparnaðarsjóðsins er að koma í veg fyrir óþarfakaup og eyðslusemi, en geyma og ávaxta fé efnalítilla manna, sem þeir kynnu að hafa afgangs og á þann hátt hvetja þá til sparnaðar og reglusemi. Að öðru leyti er það sjálfsagt, að hinir efnabetri eiga frjálsan aðgang að sjóðnum ef þeir þar vilja geyma og ávaxta fé sitt, samkvæmt þeim reglum, sem settar eru í lögum þessum.“

Á fyrsta aðalfundinum, 1. júlí 1873, var þetta gert:

„1. Framlagðar bækur sjóðsins af gjaldkjera, er finnast reglulega og vel færðar, og á sjóðurinn eptir þeim 390 rdl 8 sk.
2. Kosin Stjórnarnefnd sparnaðarsjóðsins og urðu fyrir kosningu: Jóhann Jónsson á Höfn formaður, Snorri Pálsson á Siglufirði gjaldkjeri, Sr Tómas Björnsson á Hvanneyri varaformaður.
3. Rætt um hvernig verja skuli peningum sjóðsins og var ályktað að kaupa skyldi konungleg skuldabrjef fyrir 2/3 hluta af því er sjóðurinn ætti við lok kauptíðar á yfirstandandi sumri, en 1/3 hluta lofar gjaldkjeri fyrir að standa megi í verzlan Thaaes á Siglufirði.
4. Kosinn forstöðumaður í stað óðalsbónda Sveins Sveinssonar á Haganesi er var einn af stofnendum sjóðsins en sálaðist 16. f. m. og varð fyrir þeirri kosningu hreppstjóri Jón Loptsson á Haganesi.“

Alls voru 80 sparisjóðsreikningar opnaðir fyrsta starfsárið og lagðir inn 1.010 ríkisdalir í, en ekkert lánað út.

Sparisjóðurinn var upphaflega til húsa í verslun Christians D. F. Thaaes á Siglufirði.

Nú er hann allur, 142 ára gamall.

Siglfirðingar gráta þennan aldna höfðingja sem verið hefur svo stór hluti af lífi bæjarbúa og margra annarra landsmanna með frábærri þjónustu á tímabili sem spannar þrjár aldir.

Úr Gjörðabók sparisjóðsins 1873.

Úr Morgunblaðinu í dag.

Forsíðumynd og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]
Úrklippa: Úr Morgunblaðinu í dag.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]