Iðnaðarmaðurinn og svartsvanurinn


Einhver hér í firði létu blekkjast í gær af fréttinni um svartsvaninn sem vera átti á Langeyrartjörninni en lét ekki sjá sig þótt rækilega væri að gáð. Því var hvíslað að tíðindamanni að ungt par í suðurbænum hafi verið þeirra á meðal.

Snemma morguns segir pilturinn við unnustu sína, sem er farin að athuga samfélagsmiðlana einn af öðrum, að nú sé vissara að gæta sín, því upp sé runninn fyrsti dagur aprílmánaðar, með alls kyns óknyttum. Sammæltust þau um að láta ekki glepjast af undarlegum sögum, sem kynnu að vilja berast að augum þeirra og eyrum. Litlu seinna fer piltur inn í miðbæ og rekst þar á ónefndan iðnaðarmann, sem hann bráðvantaði að fá til að gera dálítið fyrir sig og ámálgar þetta við hann. Sá telur það auðsótt mál og kveðst myndu líta suður eftir fyrir hádegið og redda þessu. Piltur flýtir sér heim við svo búið og gerir allt klárt, en gleymir að nefna þetta við kærustu sína.

Svo kemur hádegið. Og klukkan verður eitt, tvö, þrjú og fjögur og fimm – án þess að nokkur knýi dyra. Þá lítur piltur út um glugga og segir mæðulega við unnustuna, sem hefur líka verið að svipast þar töluvert um: „Það bólar ekkert á honum.“ Og hún svarar um hæl: „Nei, þetta er alveg stórfurðulegt, en það stóð svart á hvítu á Siglfirðingi.is að svartsvanurinn ætti að vera þarna. Og ekki lýgur presturinn…“

Annars er ljótt að plata.

Mynd: Fengin af Netinu.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is