Íbúar Fjallabyggðar, nú segjum við NEI!

Mikil ólga og reiði er í þjóðfélaginu –
og sérstaklega þó úti á landsbyggðinni – vegna áforma ríkis-stjórnarinnar
í heilbrigðismálum á næsta fjárlagaári.

Annað kvöld ætlar starfsfólk á
Heilbrigðisstofnuninni Fjallabyggð að ganga í hús og safna undirskriftum
gegn niðurskurðinum sem fyrirhugaður er á HSF.

Sams konar undirskriftum
er verið að safna um allt land.

Allir listarnir verða svo afhentir
næstkomandi fimmtudag á Austurvelli en þar verða fulltrúar frá flestum
ef ekki öllum heilbrigðisstofnunum á landinu og vonandi fleira fólk.

Tökum vel á móti þeim sem knýja munu dyra hjá okkur til að biðja um stuðning vegna þessa.

Meðfylgjandi er hér textinn á undirskriftalistanum, til glöggvunar.

Íbúar Fjallabyggðar, nú segjum við NEI!

Við undirritaðir íbúar í Fjallabyggð skorum á ríkisstjórn og Alþingi að hverfa frá þeim mikla niðurskurði á fjárveitingum til Heilbrigðistofnunarinnar Fjallabyggð (HSF) sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjárlögum. Þessi niðurskurður mun hafa í för með sér verulega skerðingu á grunnheilbrigðisþjónustu íbúa sveitafélagsins.

Ef niðurskurðurinn verður staðreynd munu Landsspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri taka við eftirgreindri almennri sjúkrahússþjónustu:

  • Langflestum deyjandi sjúklingum
  • Krabbameinssjúklingum
  • Almennum  lyflæknissjúklingum s.s. lungnasjúklingum, hjartasjúklingum, sjúklingum með blóðtappa o.fl.
  • Langflestum einstaklingum sem eru vistunarmetnir og geta ekki verið heima lengur
  • Bæklunarsjúklingarfrá LSH eða SA þurfa verða alla leguna á LSH eða SA
  • Langflestum sjúklingum með sýkingar sem þurfa innlögn
  • Langflestum sjúklingum með kvíða, þunglyndi og önnur andleg vandamál sem krefjast innlagnar

Hvíldarinnlagnir á HSF munu leggjast af en það hefur í för með sér að aldraðir einstaklingar geta ekki dvalið eins lengi heima og ella. Þar að auki mun HSF hætta að vera sá bakhjarl fyrir heimahjúkrun, heilsugæslu og bráða- og sjúkraþjónustu sem hún hefur verið.

Í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er kveðið á að öllum sé tryggður réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli og sambærilegra atvika. Enda segir í  lögum um heilbrigðisþjónustu að ÖLLUM landsmönnum sé tryggður réttur til grunnþjónustu í heilbrigðismálum.

Enda teljum við það sjálfsögð mannréttindi að lágmarks sjúkrahússþjónusta sé tryggð í Fjallabyggð.

Nú verða íbúar Fjallabyggðar að snúa bökum saman

og segja allir sem einn: ?Nei!?, við áformum ríkisstjórnarinnar.

?Hingað og ekki lengra, takk.?

Mynd og inngangstexti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is