Í fanginu á konunni þinni


Sveinn okkar Björnsson kann að orða hlutina. Blaðamaður Mbl.is hringdi víst í hann seinnipartinn í dag til að forvitnast um veðrið og fékk að kynnast íslenskunni upp á sitt besta og innsæi og pælingum gamalreynds sjómanns í leiðinni og er sennilega enn að melta allt það sem hann fékk beint í æð að norðan.

En fréttin þar er svofelld:

Norðlæg­ar átt­ir hafa valdið nokkr­um kulda á norðan­verðu land­inu. Sveinn Björns­son, átt­ræður Sigl­f­irðing­ur, er á því að sum­arið þar hafi verið frek­ar kalt. „Það hef­ur verið þurrt en frek­ar kalt. Reynd­ar er von á vætutíð núna en kuld­inn verður áfram hér,“ seg­ir Sveinn í sam­tali við mbl.is.

„Skap­ar­inn er nokkuð klók­ur“

„Hita­stigið hef­ur tekið mið af sjón­um, sem er um 6 gráðu heit­ur. Þegar það ligg­ur svona lengi í norðanátt verður hita­stigið svipað og sjáv­ar­hit­inn.“ Ein­stöku sinn­um hafa komið ágæt­ir sum­ar­dag­ar. „Inn á milli koma ein­staka glenn­ur til að halda móraln­um í lagi. Skap­ar­inn er nokkuð klók­ur hvað þetta varðar. Þegar hann sér að það þyrm­ir yfir fólk þá send­ir hann eina glennu.“

Næsta vika verður góð fyr­ir gróður­inn. „Það er von á bleytu. Af því að átt­in verður norðlæg verður eng­inn hiti í þessu og það væri gott ef þetta færi í 10 gráður. Ætli þetta verði ekki 7 gráður meðan þetta geng­ur yfir. Vegna þess að vind­ur­inn kem­ur af hafi og sjór­inn er það kald­ur. Héðan er stutt í ís­hafið og við tök­um bara mið af því.“

Kapp­klædd­ir ferðamenn

Sveini sýn­ist veðrið ekki hafa nein áhrif á straum ferðamanna í bæ­inn. „Þeir eru líka all­ir kapp­klædd­ir, í góðum úlp­um og með hett­ur á höfðinu. Það hef­ur verið tals­verður straum­ur ferðamanna í bæ­inn. Sum­ir koma með skemmti­ferðaskip­um og stoppa bara í nokkra tíma en aðrir dvelja leng­ur.“

Sveinn seg­ir að fólk geti litið til fjalla og þá sjá­ist greini­lega að tíðin hafi ekki verið góð í sum­ar. „Maður sér hvað snjór­inn bráðnar seint í fjöll­un­um. Með þessu áfram­haldi verður hell­ing­ur eft­ir í haust og það er góður mæli­kv­arði á loft­hit­ann. Þetta er búið að vera með því kald­ara und­an­far­in fjög­ur ár.“

Fjöll­in veita skjól

Hann seg­ir að al­mennt sé gott skjól í bæn­um, enda veiti fjöll­in gott skjól. „Ef það er austanátt eða norðaust­an þá er yf­ir­leitt logn eða lít­ill vind­ur og við verðum svo miklu minna vör við að það sé eitt­hvað að ger­ast fyr­ir utan okk­ur.“ Norðan- og norðvestan­átt­in sé slæm, þá blæs beint inn fjörðinn. „Ann­ars er mjög gott skjól. Þetta er bara eins og að vera í fang­inu á kon­unni þinni, þarft bara að setja nefið á milli brjóst­anna á henni og þá finn­urðu ekki neitt, nema bara ilm­inn af þess­ari elsku.“

Myndin hér fyrir ofan var annars tekin á sjöunda tímanum í kvöld.

Sómi villimannahverfisins, sverð og skjöldur, höfðinginn Sveinn Björnsson, á 75 ára afmæli sínu, 3. nóvember 2010. Hann lítur nákvæmlega eins út í dag, hefur ekki breyst agnarögn. Og er alltaf jafn ferskur og hress.

Myndir: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Mbl.is / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is