47 ár frá vígslu Strákaganga


Í dag eru 47 ár frá vígslu Strákaganga.

Af því tilefni er fróðlegt að rifja upp nokkur atriði varðandi jarðgöng milli Siglufjarðar og nágrannabyggða.

„Að fá akveg alla leið framan úr Stíflubotni og til Siglufjarðar er markið sem báðar sveitirnar þurfa að stefna að – ef staðhættir á nokkurn mögulegan hátt leyfa það – á meðan við ekki fáum göng með sporbraut gegnum fjöllin og vagna knúða rafafli úr Skeiðsfossi.“ Þetta sagði Jón Jóhannesson ritstjóri í siglfirska blaðinu Fram haustið 1918.

Bæjarstjórn Siglufjarðar beindi þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnarinnar haustið 1929 „að hún láti rannsaka kostnað við að grafa jarðgöng gegnum fjallið milli Siglufjarðar og Fljóta – Botnaleið – eða annars staðar ef tiltækilegra þætti,“ sagði í Siglfirðingi.

Þegar Strákavegurinn var fyrst til umræðu á Alþingi, árið 1954, var rætt um svonefndan Siglufjarðarveg ytri sem átti að leggja „meðfram sjónum“ og „fyrir Stráka,“ eins og sagði í Morgunblaðinu. Kostnaður við veginn var áætlaður 10 milljónir króna en göng úr botni Siglufjarðar til Fljóta voru talin kosta 27 milljónir króna. Eftir mælingar á vegarstæðinu sumarið 1955 vaknaði sú hugmynd „að gera göng í gegnum fjallið,“ eins og Alþýðublaðið orðaði það, og átti þar við Strákafjall. Lagning vegarins hófst haustið 1956. „Jarðgöngin gegnum Stráka verða mestu jarðgöng hérlendis, um einn kílómeter á lengd og 6-8 metrar á breidd og tvær akbrautir.“ Frá þessu var sagt í Alþýðublaðinu vorið 1959, en síðar var ákveðið að hafa göngin einbreið en með útskotum. Framkvæmdir við Strákagöng hófust sumarið 1959. Þá voru sprengdir 30 metrar og verkfærin voru „þrjár loftpressur, ámokstrarvél og bílar,“ að sögn Vísis.

Að morgni laugardagsins 17. september 1966 var „sprengt í gegn“ í Strákagöngunum. Þá hafði 25 manna vinnuflokkur unnið á vöktum við sprengingar í þrettán mánuði. Göngin liggja í um eitt hundrað metra hæð. Þau voru formlega tekin í notkun 10. nóvember 1967. Þau voru 793 metra löng. „Einangrun Siglufjarðar rofin,“ sagði Morgunblaðið.

Á Youtube.com er ýmislegt að finna og sjá og þar á meðal eru fróðlegar svipmyndir Sjónvarpsins frá 1966, úr þætti sem nefndist Úr handraðanum. Þulur er Ólafur Ragnarsson.

Sjá hér. Það sem er frá Siglufirði byrjar 5:35 og endar 7:38.

Mynd: Alþýðublaðið, 1967.
Texti: Jónas Ragnarsson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]