Í berjamó


Þótt ágústmánuður sé ekki nema rétt byrjaður má víða í hlíðum
Siglufjarðar finna ágætis berjalönd, tilbúin. Sumstaðar vantar þó
dálítið upp á að allt sé orðið nægilega þroskað, en nokkrir sólardagar í
viðbót á næstunni myndu gera útslagið. 

Krækilyng er ein af algengustu jurtum Íslands og hafa landsmenn vafalaust nýtt sér ber þess alveg frá upphafi landnáms, þótt bláber og aðalbláber hafi kannski jafnan þótt betri. Samkvæmt íslensku þjóðveldislögunum mátti tína ber upp í sig á eignarlandi annarra en það varðaði sektum að tína þau og flytja burtu. Og víða eru berjalönd talin til hlunninda í gömlum jarðabókum. Ekki fer þó miklum sögum af berjamatreiðslu í fornum heimildum en vitað er til þess að krækiberjavín hafi verið bruggað í Skálholti snemma á öldum, sennilega vegna skorts á innfluttu messuvíni.

Á seinni öldum var algengast að krækiber væru borðuð fersk út á skyr eða hræring, eða notuð í súpur og grauta. Ágæt leið til að geyma C-vítamín til vetrarins í landi þar sem á því var skortur var að setja þau á milli skyrlaga. Einnig voru ber höfð til að krydda drykkjarsýru og auka við bætiefni í henni. Krækiberjaseyði þótti gott við lífsýki, og mauk berjanna, blandað vatni, afbragðsmeðal við þorsta og landfarsóttum.

Nú á tímum er fleiri ráð til að geyma ber en áður; þau eru fryst, sultuð og soðin í saft eða hlaup og einnig má gera úr þeim ljúffengar sósur. Að fátt eitt sé nefnt.

Krækiber hafa líka verið kölluð flöskuber, hrafnaber, krakaber, krákuber, krummaber, krækjuber og tunnuber. Og plantan m.a. hrafnalyng, krákuberjalyng, krummalyng, lúsalyng, og sortulyng. 

Þessi litla hnáta var alsæl með aðalbláberin sem hún fann í dag.

Þau eru sumstaðar fullþroskuð eins og sjá má hér.

Og krækiberin líka.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is