Í bæjarstjórn í sextán ár


Í dag, á afmælisdegi Siglufjarðar, var útför Stefáns Friðbjarnarsonar, fyrrverandi bæjarstjóra á Siglufirði, gerð frá Digraneskirkju í Kópavogi en Stefán lést 2. maí, 90 ára að aldri.

Stefán var fæddur á Siglufirði 16. júlí 1928, sonur Friðbjarnar Níelssonar skósmiðs, kaupmanns og bæjargjaldkera og Sigríður Stefánsdóttir frá Móskógum í Fljótum. Fyrri kona Stefáns var Hulda Sigmundsdóttir og áttu þau þrjú börn. Síðari kona Stefáns var Þorgerður Sigurgeirsdóttir.

Stefán ólst upp á Siglufirði, lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar og verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1948. Hann var aðalbókari Siglufjarðarkaupstaðar 1951-1962, var bæjarritari 1962-1966 og bæjarstjóri 1966-1974. Stefán sat í bæjarstjórn á Siglufirði frá 1958 til 1974 eða í sextán ár. Hann var ritstjóri Siglfirðings 1948-1951 og 1966-1974.

Stefán réðst til Morgunblaðsins þegar hann flutti til Reykjavíkur 1974 og starfaði þar sem blaðamaður til 1998. Hann var lengi umsjónarmaður þingfrétta en sinnti einnig stjórnmálaskrifum. Hann hafði verið fréttaritari Morgunblaðsins á Siglufirði frá 1950 til 1974.

Stefán sat í bæjarráði Siglufjarðar og ýmsum nefndum á vegum bæjarfélagsins, í stjórn Fjórðungssambands Norðlendinga 1966-1975 og var formaður þess 1966-1969, í fulltrúaráði Sambands íslenskra sveitarfélaga 1967-1970, í stjórn Hafnasambands sveitarfélaga 1969-1971 og í stjórn Ríkisspítalanna á árunum 1978-1995, varaformaður stjórnar frá 1983. Stefán var í Lionsklúbbi Siglufjarðar og Frímúrarahreyfingunni. Stefán var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1996.

Stefán Friðbjarnarson vann á bæjarskrifstofunni á Siglufirði frá 1951 til 1974, þar af sem bæjarstjóri í átta ár. Myndin var tekin í Hvíta húsinu við Tjarnargötu um 1960.

Mynd: Ólafur Ragnarsson.
Texti: Sigurður Ægisson │ sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is