Hvítabirnir á Tröllaskaga


Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Hvítabirnir á Íslandi eftir Rósu Rut Þórisdóttur mannfræðing. Þessi mikla og fróðlega bók tekur fyrir landgöngur hvítabjarna frá landnámi til okkar tíma. Bókin byggir á áratuga heimildasöfnun föður hennar, Þóris Haraldssonar líffræðikennara við Menntaskólann á Akureyri, sem lést í byrjun árs 2014. Auk sagna af eiginlegum landgöngum er að finna í bókinni þjóðsögur, munnmælasögur, kvæði og annan fróðleik sem tengist hvítabjörnum á Íslandi í gegnum tíðina.

Bókin varpar ljósi á hversu tíðar hvítabjarnakomur hafa í raun verið í gengum tíðina og frásagnirnar hversu skæðar skepnur um er að ræða. Til að mynda er sagt að bærinn að Dröngum í Árneshreppi hafi tvisvar farið í eyði vegna bjarndýra og bærinn Þeistareykir norður af Mývatnssveit þrisvar sinnum. Bæirnir Möðrudalur og Kjólstaðir á Efra-Fjalli eru einnig sagðir hafa farið í eyði af sömu ástæðum.

Hvítabirnir hafa þá sérstöðu á Íslandi að vera einu mannskæðu rándýrin sem hingað geta komist af sjálfsdáðum. Vegna þessa hafa þeir valdið mönnum hugarangri og andvökunóttum öld eftir öld. Blessunarlega fer fáum sögum af því að dýrin hafi skaðað fólk hér á landi þó að stundum hafi litlu mátt muna. Slíkar sögur eru þó sannarlega til og hafa varðveist frá kynslóð til kynslóðar. Vitað er um a.m.k. 30 Íslendinga sem birnir hafa orðið að aldurtila, beint eða óbeint. Sá seinasti var Hjálmar bóndi í Höfn í Hornvík sem barðist við hvítabjörn með hákarlalensu að vopni í kringum 1850. Í bardaganum tókst bjarndýrinu að bíta illa í handlegginn á Hjálmari. Sárið var svo mikið að hann lést af því nokkru síðar.

Tröllaskaginn hefur löngum heillað hvítabirni. Auk nýlegri atburða sem flestum eru í fersku minni er til að mynda fjallað um Jón höfuðsmann sem sumir sögðu að hefði fyrst búið í Fljótum við Skagafjörð. Jón Jónsson var kallaður höfuðsmaður af því að hann var höfði hærri en aðrir menn og auk þess rammur að afli. Hann var bóndi og kenndur bæði við Oddsstaði og Skinnalón á Melrakkasléttu. Hann var mikill vexti og karlmannlegur. Þegar hafís bar að landi var hann vanur að ganga út á ísinn og leita eftir bjarndýrum. Sagnir segja að hann hafi fellt 19 dýr eða 20, aðrar segja þau færri. Hann var ævinlega einn á ferð og þótt hann hafi kunnað að fara með byssu notaði hann aldrei annað vopn en spjót eða lensu á bjarndýrin.

Það var rétt fyrir hádegi sunnudaginn 14. febrúar 1988 að Ómar Ólafsson, bóndi á Laugalandi, og Zóphanías Frímannsson, bóndi á Syðsta-Mó í Fljótum, urðu varir við bjarndýr í fjörunni í Haganesvík. Á fjörukambinum voru geymdir bátar og voru bændurnir að moka frá bát sem þeir ætluðu að fara að setja niður til að huga að netum þegar bjarndýr spratt upp undan einum bátnum. Mönnunum brá mikið, ekki síst vegna þess að 8 ára gamall sonur Ómars, Atli Þór, var með þeim og lék sér þar í fjörunni skammt frá. Er atburðarásinni gerð góð skil í bókinni einnig þeim áhuga sem vaknar á birninum eftir að hann er felldur en samkvæmt lögum frá 1849, sem þá voru enn í gildi, eignaðist Sigurbjörn Þorleifsson, bóndi í Langhúsum, dýrið þar sem hann veitti banasárið.

Sigurbjörn varð strax var við mikinn áhuga meðal Íslendinga á að komast yfir bjarndýrið og var samdægurs farið að falast eftir skrokknum. Meðal annars föluðust veitingahús í Reykjavík eftir bjarndýrakjöti til að setja á matseðla sína. Heilbrigðisfulltrúar sáu þó til þess að kjötið fór ekki til manneldis né nokkurs annars eldis. Húnninn var á endanum stoppaður upp af Steingrími Þorsteinssyni og gefinn náttúruminjasafni Varmahlíðarskóla.

Mynd og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]