Hvar eru kvikmyndirnar?


Hinn 29. maí 1965 birtist frétt í Morgunblaðinu um það hvað ?áhugafélag siglfirzkra kvikmyndatökumanna? væri að fást við. Þá nýverið hafði það sýnt nokkrar kvikmyndir úr bæjarlífinu, m.a. innlit í Gagnfræðaskólann og Æskulýðsheimilið.

Og nú er spurt: Hvar skyldu þessar ræmur vera niðurkomnar?

Fréttin var svofelld:

?Linsan? sýnir kvikmyndir úr bæjarlífi Siglfirðinga

Siglufirði, 26. maí.

KVIKMYNDAKLÚBBURINN Linsan, sem er áhugafélag siglfirzkra kvikmyndatökumanna, sýndi þriðjudaginn 25. maí, og hafði áður sýnt föstudaginn, 21. maí, siglfirzkar kvikmyndir úr bæjarlífinu, atvinnu- og menningarlífi. Fyrsta myndin hét ?Úr staf í tunnu? og sýnir, hvernig tunna verður til og starfsemina í hinni nýju tunnuverksmiðju. Önnur myndin hét ?Róður með Hring?, er sýndi línu-, tog- og nótaveiðar. Sú þriðja var frá safnasýningunni, þar sem hin margvíslegustu einkasöfn voru sýnd; hin fjórða úr skólalífi Gagnfræðaskóla Siglufjarðar, og fimmta myndin hét ?Hér á æskan heima? ? fjallaði hún um hið merka starf Æskulýðsheimilis Siglufjarðar og fjölbreytta starfsemi, sem þar fer fram. Auk þess voru sýndar nokkrar fréttamyndir; Ís á höfninni; Eldsvoði á bæjarskrifstofum; Börn á gæzluvöllum; Sjóskíði á Siglufirði; Réttir, og sitt hvað fleira.

Þessar fögru litkvikmyndir úr bæjarlífi Siglfirðinga vöktu bæði athygli og ánægju. Kvikmyndatökumenn voru Ólafur Ragnarsson, Tómas Hallgrímsson, Hafliði Guðmundsson, Jón Sveinsson, Hinrik Aðalsteinsson, Steingrímur Kristjánsson, Guðmundur Ingólfsson, Bragi Magnússon og Pétur Guðmundsson.

– Stefán.

Mjög svo gaman væri ef þær kæmu í leitirnar, því sennilega yrði lítið mál að koma þeim í sýningarhæft ástand með því að yfirfæra þær á stafrænt form.

Einhver?


 

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is