Hvanndalaskriður II


Nokkrir lesendur Siglfirðings.is höfðu samband í kjölfar fréttarinnar af báts- eða skipsvélinni sem Gestur Hansson fann í fjörunni undir Hvanndalaskriðum á dögunum og bentu á heimildir um tvö skip sem farist höfðu á þessum slóðum, annað 24. október 1888, skonnortan Herta eða Hertha, og hitt 22. september 1959, vélbáturinn Margrét NK 49.

Í blaði einu sem nefndist Lýður og var gefið út á Akureyri frá 1888-1891 segir 5. nóvember 1888 m.a.:

„Skipið „Herta“, eign Gránufélagsins, skipherra Petersen (einn af sonum Gránu-Petersens), brotnaði á svipstundu í spón og fórust allar vörur undir Hvanndalabjargi (milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar) nóttina fyrir 24. f. m. Hafði skipið fyrir fám dögum lagt út héðan, hlaðið lýsi og kjöti, en komizt ekki norðaustur fyrir sakir þvervinda. Nóttina, er strandið vildi til, var norðaustan hörku-bálviðri. Ætlaði skipstjóri að hitta Eyjafjörð, en sakir ofsa og myrkurs varð við ekkert ráðið. Vissu þeir eigi fyrri en skipið bar óðfluga að bjarginu. Var hlaupið til segla, en í sömu svipan skall skipinu landbrimið. Hinn fyrsti brotsjór mölvaði rár og rengur og slöngdi stýrimanninum af miðju þilfari og aptur á stýrishún. Skipherrann, sem er hinn mesti sjógarpur, eins og allir þeir feðgar, sýndi stakan dugnað við mannbjörgina. Bárust þeir á kaðli til lands, og fór skipherrann sjálfur síðastur; var skipið þá og nálega komið í spón. Stýrimaðurinn hafði brotið bringbeinið, kom skipherrann honum á land, en hann bað hann láta sig þar kyrran, bað hann bera kveðju konu sinni og börnum, og andaðist síðan. Því næst reyndu þeir að komast upp bjargið og tókst skipherra Petersen það við illan leik. Vildi þeim félögum það enn til lífs, að þar uppi á skriðunum heyrði skipherrann hundgá, gekk á hljóðið og hitti mann, sem leitaði að fé. Fékk hann þá hjálp hans og drógu þeir hina sjóhrökktu menn uppá klifið, og burgust svo allir til byggða. Eitt var og það, sem mönnuum þessum vildi til lífs, að þetta sinn er byggð í Hvanndölum, en optast nær hefir þar enginn búið. Er sá bær úr byggð og ófær hamrabjörg beggja vegna, en bratt klif til sjávar að fara; lending er þar engin nema í logni.“

Sjá nánar hér, hér, hér, hér og hér.

Ekki mun þetta samt vera eigandi téðrar vélar, því í greininni Skip og útgerð við Ísland, eftir Hörð Sævaldsson og Hreiðar Þór Valtýsson, segir m.a.:

„Fyrsti togarinn sást á Íslandsmiðum árið 1891, sá var enskur. Þeim fjölgaði svo hratt ár frá  ári. Ef siglt var um Íslandsmið um aldamótin 1900 mátti því búast við að sjá franskar, belgískar og færeyskar seglskútur veiða þorsk, amerískar skútur að veiða lúðu, enska, hollenska og þýska togara veiða flatfiska og þorsk og norska báta við veiðar á síld og hval… Fyrsta vélin var sett í bátinn Stanley á Ísafirði árið 1902 og fyrsti íslenski togarinn, Coot frá Hafnarfirði, kom árið 1905.“

En í Alþýðublaðið 26. september 1959, segir m.a.:

„Vélbáturinn Margrét NK 49 strandaði í Héðinsfirði s.l. þriðjudagskvöld, undan svonefndum Músadal. Þetta er 14 smálesta bátur og var áhöfnin þrír menn. Nánari atvik eru þau, að vél bátsins bilaði þarna á firðinum og lagðist báturinn þá við legufæri. Tveir af áhöfninni fóru í land á gúmmíbát og héldu gangandi til Ólafsfjarðar til að sækja hjálp. Er leiðin, sem þeir fóru, seinfarin og yfir erfiðan fjallveg að fara. Þegar til Ólafsfjarðar kom, var brugðið skjótt við og farið á m.s. Þorleifi Rögnvaldssyni út á Héðinsfjörð og komið þangað nokkru fyrir miðnætti. Var þá skollið á myrkur og sást Margrét hvergi, þrátt fyrir talsverða leit. Flaug mönnum í hug, að bát hefði borið að og dregið Margréti til Siglufjarðar. Þangað var haldið, en árangurslaust, og förinni þá aftur heitið til Héðinsfjarðar. Kom m.s. Þorleifur Rögnvaldsson þangað í birtingu á miðvikudagsmorgun og sáu skipverjar þá einn mann í svonefndum Skriðum, austan í Héðinsfirði. Var þegar lent hjá Vík og farið í land til að sækja manninn. Var hann þá illa til reika og allþjakaður af kulda og vosbúð, enda farir hans ekki sléttar. Hafði Margrét slitnað upp frá legufærunum og rekið að landi. Kastaðist maðurinn í sjóinn, er bátinn tók niðri, en komst þó í land við svo búið. Báturinn brotnaði eitthvað. Er líðan skipbrotsmannsins nú eftir atvikum orðin góð.“

Líklegt verður að telja að umrædd vél sé úr þessum báti, þótt ómögulegt sé að fullyrða það.

Sjá líka hér.

musadalur

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | [email protected].
Kort: Fjallabyggð.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]