Hvalshræ á Evangerfjöru


Hræ af á.a.g. 13-14 m löngum hval liggur í fjöru undir Evangerrústunum, handan Siglufjarðarbæjar. Óðinn Freyr Rögnvaldsson gekk fram á það í dag. Það er illa farið og lyktandi, í einum vöðli og sporðblaðkan meira en lítið undarleg og því erfitt um nákvæma greiningu en líklegast er þetta búrhvalur, tarfur.

Vera má að þarna sé um sama dýr að ræða og kom á fjörur við Dalvík í byrjun maí á þessu ári. Það var dregið út á rúmsjó, fyllt af dýnamíti og sprengt, en allt kom fyrir ekki, heldur flaut það inn Eyjafjörðinn og upp í fjöru þar. Það kann að hafa losnað síðar og rekið út aftur. Á stórstraumsflóðinu um daginn, 16. og 17. þessa mánaðar, að viðbættum norðansperringnum sem þá var, má vera að það hafi komið inn Siglufjörð og endað þarna. Nema að það hafi gerst löngu áður. Enginn virðist samt hafa vitað um þetta fyrr en núna.

Búið er að tilkynna Hafrannsóknastofnun um fundinn og vafalaust kemur einhver á hennar vegum á morgun eða hinn og tekur sýni og jafnvel eitthvað meira.

Búrhvalurinn er langstærstur allra tannhvala. Fullvaxnir tarfar eru nú á tímum um 16–19 m að lengd og vega 35–50 t en eldri heimildir finnast um 21 m löng dýr. Kýrnar eru hins vegar allnokkuð minni eða á bilinu 8–13 m og vega um 15–20 t þótt áður fyrr hafi þær tíðkast stærri, allt að 17 m langar. Stærðarmunur kynjanna er hinn mesti sem þekkist meðal hvalanna.

Skrokkurinn er nær allur dökkgrár eða svarbrúnn að lit, varirnar þó hvítar og oft kviðurinn líka (misjafnt eftir aldri og hafsvæðum). Þá getur trýnið stundum verið æði ljóst, einkum á gömlum karldýrum. Þykk og spaðalaga bægslin eru tiltölulega lítil og oft höfð upp með síðum við köfun, sennilega til að minnka viðnám og/eða hitatap í djúpköfun. Horn (útvöxtur eða þykkildi) á baki, dálítið aftan við miðju, er lítið, getur vantað en einnig minnt á eiginlega bakhyrnu. Þaðan og aftur með styrtlunni er röð fleiri hnúða en oftast minni. Aftan við endaþarmsop er kjölur.

Sporðblaðkan er þríhyrningslaga, um 4,5 m breið, og getur verið skörðótt á afturbrúnunum. Henni er lyft þráðbeint upp fyrir köfun.

Tennur í neðri kjálka, löngum og mjóum, eru um 32–60 talsins og geta verið um 10 cm langar (með rót um 25 cm og vegið hver um sig yfir 1,5 kg). Þær ganga í holur í efri skolti.

Búrhvalurinn er með stærsta heilabú dýraríkisins. Það vegur um 10 kg.

Blástursholan er framarlega á höfðinu vinstra megin. Súlan vísar því örlítið í þá átt og skáhallt fram. Hún er yfirleitt fremur lág og mikil um sig en getur náð 5 m hæð.

Búrhvalurinn er talinn vera einhver mesti djúpkafari allra hvala, einkum tarfarnir. Neðansjávarbergmálstæki hafa fundið þá á 2.800 m dýpi og óbein vitneskja er um að þeir fari enn dýpra eða niður á 3.200 m dýpi. Yfirleitt er þó talið að búrhvalurinn afli sér fæðu á 300–400 m dýpi og að hver dýfa taki um 15 mínútur, þótt vitað sé að hann geti verið í kafi mun lengur. Hinn 11. nóvember 1983 hlustuðu t.d. líffræðingar í suðvestur Karíbahafi á 5 búrhvali sem þar voru neðansjávar í alls tvær klukkustundir og 18 mínútur.

Höfuð búrhvalsins, sem er 25–35% af allri lengd hans, er ákaflega sérkennilegt. Í því er geymir með undarlegri lýsistegund, allt að 1.900 lítrum, sem talið er að hvalurinn noti til að auðvelda sér þessa umræddu djúpsjávarköfun með því að hnika efninu til í líkamanum eftir því hvort upp er stefnt eða niður og eins til að jafna þrýsting og auka súrefnisupptöku.

Þessar ferðir búrhvalsins niður í svörtustu undirdjúp koma ekki til að nauðsynjalausu því eina fæðulind hans, þ.e.a.s. risasmokkfisk (Architeuthis dux) og tröllasmokkfisk (Mesonychoteuthis hamiltoni), er þar að finna. Má oft líta utan á búkum kringlótt ör eftir sogskálar þeirra. Og einhverju sinni munu þessi för hafa verið slík að þvermáli að ljóst er – með einföldu reikningsdæmi – að eigandinn hefur a.m.k. verið 45 m langur. Búrhvalurinn getur fundið þá í allt að kílómetra fjarlægð með því að senda rokur af hljóðbylgjum út í sjóinn og nema endurkastið sem þaðan berst inn í eyrað.

Auk þessara fæðutegunda búrhvalsins eru nefndir túnfiskur, risaskata, hákarl og einnig stór kolkrabbi. Í Norður-Atlantshafi eru ýmsar smærri fisktegundir þó oftar á matseðlinum, eins og hrognkelsi, karfi, skötuselur, þorskur, ufsi og hlýri, en einnig étur hann talsvert af smærri höfuðfætlingum.

Félagskerfi búrhvalsins er margslungið, en í stærstu atriðum þannig að sérhver hjörð inniheldur einstaklinga sem bundnir eru af ákveðnu kyni eða aldri eða þá einhverju öðru. Til dæmis fer tarfur um með kvennabúr sem venjulega samanstendur af á.a.g. 20–30 fullorðnum dýrum og á líkan máta halda ung kvendýr saman, ungir tarfar, o.s.frv.

Mökun er aðallega í aprílmánuði þegar hjarðirnar sem geta innihaldið allt að 1.000 dýrum hver eru á norðurleið. Meðgangan tekur um 16 mánuði og fæðist kálfurinn á sumrin. Þá er hann um 4 m að lengd og vegur um 1 tonn. Hann er á spena í um 12 mánuði. Talið er að kýrnar beri á þriggja ára fresti.

Búrhvalurinn er útbreiddur um öll úthöf jarðarinnar en er þó fyrst og síðast heitsjávarhvalur. Búrhvalir í kaldsjónum eru allir fullorðnir tarfar og er þá ýmist um að ræða gamla einstaklinga sem fara einförum eftir að hafa misst kvennabúr sín eða þá ung dýr og óreynd sem fara nokkur saman í hóp, oft 10–20, og bíða síns tíma. Eru þetta tarfar á aldrinum 12–54 ára.

Búrhvalskýr verða kynþroska 7–13 ára gamlar og eru þá búnar að ná 8–9 m lengd en tarfarnir verða ekki kynþroska fyrr en mun seinna eða 18–21 árs og eru þá um 11–12 m langir. Þeir verða samt að bíða í nokkur ár í viðbót til að eiga möguleika á að brjótast til valda í kvennabúri.

Vetrarstöðvarnar í Norður-Atlantshafi eru í nágrenni Grænhöfðaeyja og Kanaríeyja.

Ekki er ljóst hversu gamlir búrhvalir verða en eflaust má hugsa sér 80 ár í því sambandi, jafnvel meira. A.m.k. er vitað um nokkur dýr sem talið er að hafi verið 77 ára.

Fyrr á öldum var búrhvalur algengur um alla sjói. Hann var þó látinn í friði, af ótta, því af honum fóru ljótar sögur. En einhverju sinni árið 1712 komu amerískir hvalveiðimenn frá bænum Nantucket í Massachusetts að búrhvalavöðu og einn þeirra skutlaði hval af rælni. Vel gekk að ná honum og arðurinn reyndist mikill. Frá þeirri stundu hófust gífurlegar búrhvalaveiðar og stóðu nær linnulaust allt fram til þessa dags. Áttu ýmsar þjóðir eftir að koma við þá sögu.

Ekki er vitað nákvæmlega um stofnstærð búrhvals í heiminum í dag en bjartsýnustu menn gera ráð fyrir allt að 2.000.000 dýra. Aðrir telja 1.500.000 nær lagi. Og enn aðrir um 360.000. Er þá álitið að um helming þeirra sé að finna í norðanverðu Kyrrahafi. Í Norður-Atlantshafi munu vera um 20.000 dýr.

Þekktastur allra búrhvala er vafalaust Moby Dick. En hann var þó ekki sá eini til að næla sér í athygli manna því Timor Tim, Don Miguel (Chíle), Morguan (Japan), Nýja Sjálands-Jack og Nýfundnalands-Tom koma þar fast á eftir honum, allir af sömu ástæðum, þ.e. hörku sinni og áræði andspænis bátum og skipum hvalveiðimanna fyrrum.

Í grein í bókinni Íslensk spendýr, sem út kom árið 2004, segja Droplaug Ólafsdóttir og Gísli A. Víkingsson eftirfarandi :

Nýting afurða

Spik

Fullvaxinn búrhvalstarfur gat gefið af sér 11–14 tonn af spiki. Olía var brædd úr spikinu og var aðallega notuð sem vélar- og smurningsolía þar til farið var að vinna jarðolíu í lok 19. aldar. Eftir að nútímaveiðar hófust á búrhval á ofanverðri 19. öld var olían úr spiki búrhvala aðallega notuð í ýmis smyrsl og snyrtivörur.

Höfuðlýsi (spermaceti)

Aðalhvatinn að því að menn voru tilbúnir að leggja í margra ára veiðiferðir um öll heimsins höf og hætta lífi og limum við veiðar á opnum bátum fyrir tilkomu nútímaveiðitækni var hin seigfljótandi olía sem unnin var úr höfði búrhvalsins. Olíunni sem var tappað úr fitubólstrinum og pressuð úr bandvefsmassanum undir honum var mjög eftirsótt sem ljósgjafi fram yfir miðja 19. öld. Vinna mátti allt að tvö tonn úr höfði fullvaxinna tarfa en töluvert minna úr ungum törfum og kúm. Lampaolía og kerti sem unnin voru úr höfuðolíunni voru lyktar og reyklaus og mun meiri að gæðum en aðrir ljósgjafar sem þekktust á þeim tíma. Eftir að hentugri ljósgjafar tóku við af lýsinu var það aðallega notað í blek og snyrtivörur, auk þess sem það var notað í ullariðnaði til þess að fjarlægja fitu úr ull.

Ambur

Langverðmætasta afurð búrhvalsins var ambur sem er vaxkennd fita er safnast í bólstra utan um harða hluta fæðunnar, oftast smokkfiskgogga. Ambur finnst í þörmum 1–4% búrhvala. Yfirleitt er einungis einn klumpur í hverjum hval en fjöldinn getur orðið nokkrir tugir. Hver klumpur vegur oftast innan við 1 kg en þó voru dæmi um klumpa sem vógu yfir 400 kg. Ambur er mjúkt og jafnvel klístrað viðkomu og gefur af sér daufan einkennandi il. Litur þess er allt frá ljósgulu yfir í nánast svart og var ljóst ambur talið verðmætast.

Aðrar afurðir

A-vítamín var unnið úr lifrarfitu. Tennur voru einnig nýttar til skrauts og húðin var lítillega notuð til skinnaiðnaðar. Á Vesturlöndum þótti kjötið óhentugt til manneldis vegna tormeltanlegrar fitunnar og var það í besta falli notað sem dýrafóður. Í Japan er hins vegar hefð fyrir neyslu kjötsins og þangað voru afurðir síðustu ára búrhvalaveiðarinnar við Ísland seldar.

Myndirnar sem hér fylgja voru flestar teknar í dag við rústir Evangerverksmiðjunnar, en einnig má sjá tvær sem teknar voru 5. maí 2016 við Dalvík og eina af lifandi búrhval djúpt vestur af Snæfellsnesi í júní 2014.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]