Hvalreki í Héðinsfirði


Fullvaxinn hnúfubakur liggur dauður á fjöru í Héðinsfirði. Ragnar Ragnarsson sá hann fyrst þarna 9. mars síðastliðinn, en meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar þremur dögum síðar. Ekki er vitað hvenær hvalinn rak þarna upp, en sennilega er töluvert um liðið.

Þótt gríðarmikið sé orðið um hnúfubaka í Eyjafirði og Skjálfandaflóa, einkum á vorin, sumrin og haustin, er ekki algengt að sjá þá í mynni Héðinsfjarðar eða í Siglufirði. Sbr. þetta hér. En þeir eru víða út af Ólafsfirði.

Hnúfubakinn er annars að finna í öllum heimshöfum. Að mestu er hann bundinn við landgrunnssvæði nema á fartíma. Á sumrin er hann við fæðunám allt upp að ísjaðri heimskautasvæðanna beggja vegna en á veturna er hugað að öðrum málum; einhverjir verða þó eftir. Hnúfubakar við Norður-Noreg byrja yfirleitt ekki að leita suður á bóginn fyrr en upp úr áramótum.

Hnúfubakar eru oftast einfarar eða fara um í litlum hópum, þetta tvö til fimm 2–5 dýr, nema á ríkulegustu ætissvæðum og um fengitímann þar sem mikil keppni getur verið milli allt að 20 tarfa um glæsilegustu kúna. Um það leyti og á fartíma gefa þeir frá sér margvísleg hljóð sem enn er ekki fyllilega vitað til hvers eru. Geta þetta verið allflókin stef, varað í 6–35 mínútur en eru svo endurtekin langtímum saman. Þau eru breytileg milli hafsvæða. Þannig er laglínan í Norður-Atlantshafi önnur en sú í Norður-Kyrrahafi o.s.frv. Öll karldýr innanbúðar raula þó sömu melódíuna. Hún á það til að breytast varanlega á til þess að gera stuttum tíma, einhverra hluta vegna. Meðal hnúfubaka við Ástralíu gerðist það t.a.m. á einungis tveimur árum. Sú gamla er aldrei sungin eftir það. Kýrnar láta einnig í sér heyra en ekkert í líkingu við það sem frá törfunum kemur.

Hnúfubakurinn getur ekki synt eins hratt og önnur reyðarhveli, þrátt fyrir hin geysistóru bægsli, og fer sér reyndar ósköp hægt alla jafna eða á 5–10 km/klst. Þó getur hann, ef kemur að honum styggð, náð allt að 27 km/klst í stuttan tíma.

Hnúfubakurinn liggur oft í yfirborðinu, gjarnan með annað bægslið upp í loft eða þau jafnvel bæði (er þá á hvolfi) og getur að auki verið forvitinn og nálgast skip og báta og fylgt þeim eftir. Stundum er hann á útkíkki, rekur höfuðið upp úr og litast um. Þá er hann rómaður fyrir „loftfimleika” sína og á það til að „þurrka sig“ næstum alveg.

Um fjölmarga aðskilda stofna er að ræða, ólíka um margt, bæði í hegðun og útliti.

Fullvaxinn hnúfubakur er nú á tímum oftast 11–17 m að lengd og um 20–35 t að þyngd og eru kýr ívið stærri en tarfar. Gamlar heimildir eru þó um stærri dýr, allt að 19 m og 40 t. Þessi sem liggur á fjörunni í Héðinsfirði virðist vera um 17 m langur.

Elsti hnúfubakur sem vitað er um er álitinn hafa verið 95 ára gamall.

Hnúfubakur á það til að synda um 12.000 km veg (aðra leið) milli sumar- og vetrarheimkynnanna ár hvert og er það talið eitthvert lengsta, þekkta far allra spendýra.

Myndir: Lisa Dombrowe.
Texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]