Hvað varð um álftirnar?


Álftafjölskyldan sem við höfum fylgst með í vor hélt sig í nokkra daga á Leirutjörn eftir að ungarnir fjórir skriðu úr eggjum. Snemma sl. fimmtudagsmorgun var hópurinn á leið yfir Langeyrarveg til sjávar þegar styggð kom að þeim og allir ungarnir féllu ofan í djúpar gjótur í stórgrýtisgarðinum sem er þarna meðfram veginum.

Helga Jóna Lúðvíksdóttir áttaði sig á því sem gerst hafði, brá skjótt við og náði tveimur ungum og kom til foreldranna sem biðu æstir í fjörunni. Og syntu þeir þá sem skjótast út á fjörð. Helga kallaði þá út ?björgunarsveit? og eftir um hálftíma var þriðja unganum bjargað, óhreinum og skelkuðum.

Þessu næst var dreginn á flot bátur og svanafjölskyldan róin uppi og unganum þriðja skilað til þeirra. 


Seinni part sama dags náðist svo fjórði unginn eftir mikla fyrirhöfn. Þá var gerð tilraun til að koma þeim unga einnig til foreldranna á sama hátt og fyrr. En þá var komin slík styggð á fullorðnu fuglana að þeir syntu frá ungunum út á fjörð. Var þá orðin mikil breyting á frá því um morguninn þegar þeir ætluðu að fljúga á björgunarkonuna.

Á tímabili virtist allt ætla að enda vel en til að gera langa sögu stutta tókst álftunum ekki að sameinast og virðist sem ungarnir hafi farið of nálægt grágæs á hreiðri og gæsin bitið þá og höggvið eða barið til dauða. Stutt var því frá gleði til sorgar hjá þeim sem reyndu að hjálpa til. Og ágiskun manna um að álftafjölskyldan hafi flúið út á Siglunes er því miður ekki rétt.

Tvennskonar lærdóm má draga af þessum atburði. Keyra þarf möl í grjótgarðinn og loka fyrir þá slysagildru sem þar er. Hitt er það að oft dugar ekki velvilji og hjálpsemi manna þegar villt dýr eiga í hlut.

Þessi mynd var tekin um morguninn 12. júní síðastliðinn þegar þriðji unginn fannst og leit hélt áfram.

Leitað að fjórða unganum í grjótgarðinum.

 

Fjórða unganum sleppt um kvöldið.


Myndir: Ragnar Ragnarsson | raggi.ragg@simnet.is
og
Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

Texti: Örlygur Kristfinnsson | orlygur@sild.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is