Hvað á barnið að heita?


Eins og kunnugt er var í fyrrasumar gert myndarlegt afdrep uppi á Saurbæjarásnum, þar sem á björtum og góðum dögum sést vel yfir bæinn. Ekki náðist að klára verkið en það er núna í fullum gangi, hófst á ný fyrir viku eða svo.

Að sögn Jóns Eyjólfssonar hjá Vatnsklæðningum, en það fyrirtæki er undirverktaki hjá Háfelli, er þetta áningarstaður Vegagerðarinnar, eins og hún er með víða um land.

?Þetta ætti að verða búið í næstu viku. Ég veit reyndar ekki með trjágróður og svoleiðis, það er ekki mín deild. En einhverjar plöntur eiga að vera í miðjunni og svo á göngustígur að liggja norður í skóglendið. Það er líka hlutur sem ég er ekki búinn að setja mig inn í. En við erum sumsé að reyna að hjálpast að við að klára þetta hérna, þ.e.a.s. vinnuflokkar frá okkur og Háfelli.?

Annað afdrep verður sett upp í Héðinsfirði með aðstöðu fyrir fólk til þess að setjast niður og fá sér kaffisopa og njóta útsýnisins.

Ekki er með öllu ljóst hvað siglfirska barnið á að heita. Álfhyrnutorg var nefnt í umræðunni síðastliðið haust, einnig Ástorg, Saurbæjartorg og Skútutorg.

Kannski væri rétt að fara að taka af skarið, áður en umferð verður hleypt á göngin.

Eða hvað segja annars meistararnir, Hannes, Páll og Örlygur?


Flott staðsetning.


Verið er að leggja lokahönd á verkið þessa dagana.


Enda ekki seinna vænna.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is