Húsdúfur uppi í birkitré


Sú var tíð að húsdúfuna var að finna um nánast allt land, en á seinni hluta 20. aldar var henni útrýmt víða, með þeim rökum að hún væri ekkert annað en “fljúgandi rotta”, þ.e.a.s. bæri með sér alls kyns vafasamar plágur til handa mannskepnunni.

Nú er svo komið að þeir eru ekki margir bæirnir og þorpin á Íslandi sem hýsa þessa fuglategund. En Siglufjörður er þar á blaði og má vera stoltur af. Ekki síst er það mönnum eins og Örlygi Kristfinnssyni, bræðrunum Ólafi og Pétri Guðmundssonum og öðru góðu fólki að þakka, að sú er reyndin.

Ein af siglfirsku húsdúfunum lætur girnast af maísbollunum,

sem í eru fræ og ýmislegt annað hollt og gott.

Fyrir utan að vera gefið reglulega nærri híbýlum sínum leita dúfurnar víða fanga í ætisöflun, eins og gengur; ein var t.a.m. niðri í fjöru að róta í þara á dögunum. En að þær leituðu upp í birkitré í þessum erindagjörðum er fáheyrt. Það gerðist samt við Hvanneyri, eins og meðfylgjandi ljósmynd sýnir. Ástæðan er sú, að þar hafa verið festar upp svokallaðar “maísbollur” í grisjum, til að laða að auðnutittlinga, og þetta virðist hafa fallið dúfunum í geð jafnframt, sem láta sig hafa það, til að ná sér í hin girnilegu fræ og annað sem þar leynist.

Raunar eru ýmsar dúfnategundir elskar að trjágróðri, s.s. hringdúfan og turtildúfan, en húsdúfan er komin af bjargdúfunni, sem – eins og nafnið gefur til kynna – er dálítið öðruvísi þenkjandi um kjörlendi en téðar frænkur hennar. Þó má vera að einhvers staðar djúpt inni fyrir lúri þessi hæfileiki. Hvur veit?

Sjá nánar í ÞANKABROT.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is