Hrönn Indriðadóttir: Hetja í baráttunni við að klæða landið


Ekki er nema nokkurra mínútna akstur
frá byggðinni í Siglufirði inn í Skarðdal en þar er í dag að finna 12
til 15 hektara skóg þar sem grenið er yfirgnæfandi og hæstu trén um 10
metrar. Það hefur þó tekið langan tíma að gera skóginn að þeirri paradís
sem hann er í dag. Hafa þar margir lagt hönd á plóg og eflaust eru þeir
fáir Siglfirðingarnir sem ekki hafa þar eitthvað komið nálægt
gróðursetningu því í langan tíma hefur það verið hluti af unglingavinnu
bæjarins að taka þátt í uppgræðslunni. Einn er þó sá maður öðrum fremur
sem sýndi með sannfæringu sinni og dugnaði að hægt væri, þrátt fyrir
vantrú margra, að rækta skóg í Siglufirði. Sá maður var Jóhann
Þorvaldsson, fyrrverandi skólastjóri í Siglufirði.

Jóhann lést í október árið 1999, níræður að aldri, en þá var hann búinn
að vinna í meira en 40 ár óeigingjarnt starf í Skarðdalsreit.
Eftirmaður hans í skógræktarmálum í Siglufirði er Anton V. Jóhannsson
sem af miklum áhuga og dugnaði hefur haldið áfram uppbyggingarstarfinu
og aðspurður segir hann starfsemina í dag þá helsta að gróðursetja í
nýjan landskika sem félagið hafi fengið í Skarðdal sem og að gera
skjólbelti þannig að hægt sé að gróðursetja lítil tré. Síðast en ekki
síst er það svo áframhaldandi stígagerð til að gera svæðið aðgengilegra.

Mannrækt

Jóhann Þorvaldsson var Svarfdælingur að uppruna, fæddur á Tungufelli
16. maí árið 1909 og ólst þar upp. Á sinni löngu starfsævi var hann bæði
kennari og skólastjóri. Hann kenndi í Ólafsvík og á Suðureyri við
Súgandafjörð en flutti síðan til Siglufjarðar þar sem hann var kennari
við barnaskólann árin 1938 til 1973 og síðan skólastjóri frá 1973 til
1979. Þá var hann skólastjóri Iðnskóla Siglufjarðar frá árinu 1945 til
1973.

   

Jóhann Þorvaldsson
hlúir að trjánum í skógræktinni. Myndin er tekin 1974.

Í einu af mörgum samtölum sem blaðamaður átti við Jóhann þar sem við
ræddum um ævistarf hans sagði hann að það hefðu verið börnin, æskan sem
veitti honum miklar ánægjustundir og þegar hann var að kenna, vinna og
leika við börnin hefði hann verið í essinu sínu enda stefnan ávallt
tekin á að verða kennari og miðla öðrum af þekkingu sinni og þá
sérstaklega börnunum.

   

Jóhann tók einnig virkan þátt í félags- og stjórnmálum í Siglufirði.
Það var því ávallt mikið að gera hjá honum og eitt sinn sagði hann mér
að hefði hann farið að leggjast í leti eða safna peningum hefði hann
svikið sitt lífsstarf.

Meðal þeirra félagsstarfa sem hann sinnti var hann um tíma ritstjóri
Regins og Einherja, starfaði í góðtemplarareglunni, var heiðursfélagi
Stórstúku Íslands, æðstitemplar stúkunnar Framsóknar og formaður
Skógræktarfélags Siglufjarðar frá árinu 1948 fram til ársins 1987. Þá
var Jóhann sæmdur Fálkaorðunni fyrir störf sín við kennslu og skógrækt.

   

Eins og áður er getið andaðist Jóhann árið 1999 en eftirlifandi
eiginkona hans er Friðþóra Stefánsdóttir. Þau eignuðust fimm börn.

Skógrækt

Skógræktarfélag Siglufjarðar var stofnað árið 1940 og voru stofnendur
rétt tæplega fimmtíu, þar á meðal Jóhann sem þá var kosinn gjaldkeri.
Þess má þó geta að frumkvæðið að stofnun skógræktarfélagsins átti
Rotarýklúbbur Siglufjarðar.

   

Á stofnfundinum var greint frá svæðinu sem rækta skyldi og var það í
Hólslandi. Fyrsta verk félagsins var því að girða svæðið af.

   

Í samantekt Jóhanns sjálfs um sögu Skógræktarfélags Siglufjarðar segir
hann að fyrstu árin hafi aðalstarf félagsins verið að vinna að trjá- og
blómarækt í görðum bæjarbúa. Pantaði félagið margs konar trjáplöntur og
sá um dreifingu þeirra. Það sem af gekk var síðan gróðursett í
skógræktarlandið við Hól. Til að gera langa sögu stutta þá gekk ræktunin
illa vegna mikils ágangs búfjár og einnig urðu miklar skemmdir vegna
aurskriðna og snjóþyngsla. Ákveðið var því að hætta ræktunartilraunum en
í greinargerð Jóhanns kemur fram að á þessum tíma hafi margir talið
þetta bæði vera barnaskap og flónsku. Árið 1949 var skógarvörður í
Varmahlíð, Sigurður Jónasson, fenginn til að líta á landið og þá kom í
ljós, sem Jóhann segist reyndar hafa verið farinn að vita, að á þessu
svæði væru litlar sem engar líkur á að rækta trjágróður. Ekki varð þetta
til að auka trú íbúanna á skógrækt.

Engin uppgjöf

Árið 1948 urðu þáttaskil hjá skógræktarfélaginu þegar ný stjórn var
kosin og að þessu sinni var Jóhann kosinn formaður. Nú var ákveðið að
finna nýtt land til trjáræktar, að gefast upp kom alls ekki til greina
segir í greinargerð Jóhanns. Sigurður Jónasson skógarvörður benti á að
líklegasta landið til trjáræktar væri svo nefnt Skarðdalsland. Þar væri
vel skýlt en þó snjóalög mikil og skaflamyndanir á vissum svæðum.

   

Á þessum tíma var Jóhann af mörgun álitinn skrýtinn, þ.e. að í stað
þess að reyna að auðgast í síldarævintýrinu eins og flestir á þessum
árum var hann að hlúa að trjánum. Í viðtali í Einherja árið 1979 er
Jóhann inntur eftir því hvernig á því standi að, mitt í stríðsrekstri
heimsins og gullæði síldaráranna, séu menn með hugann við trjárækt.
Segir hann svarið liggja fyrst og fremst í því að nokkrir menn, og
nefnir hann þar Guðmund Hannesson, fyrrverandi bæjarfógeta, og Halldór
Kristinsson lækni, virtust hafa sérstakan áhuga á ræktun á jarðargróðri
og þá einkum trjárækt. Þar segir: ?Ég sem er alinn upp í sveit hafði frá
upphafi mikinn áhuga á allri jarðrækt og jarðargróðri og er ég með þeim
ósköpum fæddur að hvar sem mér finnst vanta gróður vil ég auka hann á
allan hátt og hér í Siglufirði vantar tilfinnanlega allan gróður. Fjórða
manninn vil ég tilnefna en það er Kjartan Bjarnason sem hefur verið mín
hægri hönd alla tíð.?

Árangur kemur í ljós

Skarðdalsland var girt árin 1950 til 1951. Í umræddu viðtali í Einherja
segir Jóhann að alls hafi þá verið gróðursettar um 75.000 trjáplöntur
mest af sitkagreni. Hann getur þess að harðir vetur hafi oft skilið
eftir djúp sár og getur þess sérstaklega að þegar mikill snjór er og
blautur þá vilji trén brotna.

   

Í kringum árið 1950 gerði Skógræktarfélag Siglufjarðar samning við
Skagfirðingafélagið og Þingeyingafélagið í Siglufirði um að félögin
fengju land innan girðingar til umráða og trjáræktar.

   

Í greinargerð Jóhanns kemur fram að á ári trésins árið 1980 hafi
skógræktarfélagið fengið viðbótarland, áfast við eldri
Skarðdalsgirðingu. Í þetta land, sem var 1,5 hektarar, var byrjað að
gróðursetja sama ár.

   

Stærstan hluta þeirra plantna sem settar voru niður í Skarðdalslandi
hafa siglfirskir unglingar gróðursett.

Fram til ársins 1989 hafi lítið verið
gert til að gera skógræktina aðgengilega íbúum og því vissu sjálfsagt
ekki margir hvílíka dýrð þessi staður hafði að geyma. Sumarið 1989 var
breyting þar á þegar þrír menn frá Skógræktarfélagi Íslands grisjuðu
svæðið og þá var einnig merkt fyrir helstu gönguleiðum. Árið þar á eftir
hófst síðan gerð göngustíga.

   

Í bréfkorni til blaðsins Dags árið 1985 lýsir Jóhann dýrð
skógræktarinnar. Hann segir að á sólhlýjum sumardegi jafnist fátt á við
það að hlusta á fuglasönginn og fossniðinn og anda að sér ilmi trjáa og
blóma. Á haustdegi gæfi síðan að líta litadýrð þar sem hver trjátegund
og annar gróður hefur sitt litaskrúð sem breytist frá degi til dags.

   

Þegar Jóhann var gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands, þá
áttræður að aldri, gaf félagið plöntur í trjálund sem ber nafn hans og
mun þannig halda minningu hans enn frekar á lofti.

   

Þá var Skógarhúsið í Skarðdalslandi gjöf frá Lions- og
Lionessuklúbbunum í Siglufirði árið 1984 til Skógræktarinnar.

Sannfæringarkrafturinn

Hulda Valtýsdóttir, fyrrverandi formaður Skógræktarfélags Íslands, vann
við hlið Jóhanns að skógræktarmálum í tugi ára. ?Ég átti því láni að
fagna að sitja marga fundi með Jóhanni ásamt félögum okkar úr
skógræktarfélögunum. Hann var einkar vel hreinskiptinn og rökfastur
gagnvart málstað skógræktar og hvers kyns uppgræðslu lands og mér er
næst að halda að sama gilti fyrir honum um öll þau málefni sem lúta að
jákvæðum hliðum mannlífsins. Jóhann Þorvaldsson á tvímælalaust sinn
drjúga þátt í mikilli velgengni skógræktaruppgræðslu sem nú ríkir hér á
landi og á eftir að vera landsmönnum bæði til gagns og gamans,? segir
Hulda. Innt eftir Jóhanni á fundum skógræktarfélagsins segir hún hann
oft hafa tekið til máls og að honum hafi verið einkar lagið að koma
skoðunum sínum á framfæri með sannfærandi hætti. ?Enda var honum mikil
alvara um skógræktarmálstaðinn sem var næsta framandi fyrir allan
almenning framan af öldinni sem liðin er. Hann talaði oftast blaðlaust á
fundum og við það urðu orðin lifandi fyrir áheyrendum. Hann valdi orðum
sínum stað um hina jákvæðu þætti í skógræktarstarfinu, en lét ekki
áföll eða þrengingar hafa áhrif á verkefnið,? segir hún og bætir við og
að í huga skógræktarmanna sé Jóhann hetja í baráttunni við að klæða
landið þeim gróðri sem það á skilið.

Gullkista Siglfirðinga

Eins og fyrr sagði tók Anton V. Jóhannsson við formennsku
Skógræktarfélags Siglfirðinga og tók hann við starfinu árið 1989 en
Guðmundur Jónasson gegndi því starfi frá 1987-1989. ?Í dag er skógurinn
12 til 15 hektarar og trén eru væntanlega 150.000 til 200.000, en ég er
ekki með nákvæma tölu,? segir Anton og bætir við að mest sé af
sitkagreni því næst blágreni og birki en einnig hvítgreni og furu.

   

Hann kveðst hafa átt mjög gott samstarf við Jóhann alla tíð. Inntur
eftir því hvað helst hafi einkennt skógræktarverk Jóhanns segir hann að
eitt af því hafi verið hve vel hann fylgdist með veðurfari og skráði hjá
sér frá ári til árs. Þetta bar hann síðan saman við vöxt og viðgang
trjánna.

   

Aðspurður hvaða þýðingu skógræktin hafi fyrir Siglfirðinga segir hann
hana mikla enda sé svæðið allt mjög skemmtilegt þar sem innan þess
skiptast m.a. á hólar, móar, melar, tún og mýrlendi. Þá rennur Leyningsá
með litlum fossi um skógræktina. Hér sé því um að ræða útivistarsvæði
Siglfirðinga.

Þannig hafa ræst orð Jóhanns á fundi Lionsmanna árið 1988 þar sem hann
fjallaði um útivistarsvæðið í Skarðdal. Þar segir hann að skógræktin sé
unaðsreitur Siglfirðinga, gullkista þeirra um ókomin ár. Ekki til að
sækja peninga í heldur trú á lífið og tilveruna. Trú á framtíð
Siglufjarðar og annarra norðlægra byggða.

Kota- eða Leyningsfoss
og áin prýða skógræktina eins og margt annað þar.


Orðin svartsýni, bölsýni og vantrú ekki
til

Þegar heilsu Jóhanns hrakaði tók hann upp á því að yrkja og á
níræðisafmælinu gaf hann út sína fyrstu og einu ljóðbók, Lífsferðarljóð.
Flest ljóðin í bókinni eru samin eftir áttatíu og fimm ára aldur hans.
Nafn bókarinnar segir allt sem segja þarf um ljóðin.

   

Það er ekki ein ljót hugsun í bókinni enda sagði Jóhann eitt sinn við
mig að við lestur hennar gætu margir haldið að hann hefði ekki reynt
neitt misjafnt í lífinu en fyrir honum var það einfaldlega svo að orðin
svartsýni, bölsýni og vantrú væru hreinlega ekki til, raunveruleikinn
var allt annar.

Þau eru ófá skiptin sem ég gekk með Jóhanni afa í skógræktinni og líkt
og ég stækkuðu trén. Í dag er þetta orðinn hinn allra fallegasti skógur.
Ég man vel eftir afa í skógræktinni með trjáklippurnar í annarri hendi
og límband í hinni þar sem hann gekk um og hlúði að trjánum. Oftar en
ekki vorum við með útbúið nesti frá ömmu, körfu fulla af heimatilbúnum
vínarbrauðum, kleinum, pönnukökum og brauði. Minningar segja mér að það
hafi ávallt verið sól í þessum ferðum.

[Fyrst birt í Skógræktarblaði Morgunblaðsins, 3.
október 2001, bls 2.]

Mynd af Jóhanni 1974 og texti:
Hrönn Indriðadóttir

Mynd af Leyningsfossi og ánni: Sigurður Ægissonsae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is