Hreinsað frá Álfkonusteini


Í ágústmánuði í fyrra, eftir rigningarnar miklu í Siglufirði, var í ógáti mokað að stórum hluta yfir Álfkonustein sem þar er að finna neðarlega í Selgili á Hvanneyrarströndinni. Þetta gerðist þegar starfsmenn verktakafyrirtækisins Báss hf. voru að hreinsa gríðarlegar aurskriður sem lent höfðu á veginum og talið er að hafi verið 10-12.000 rúmmetrar að umfangi og náð upp í miðja ljósastaura. Þetta uppgötvaðist ekki fyrr en í enduðum júnímánuði síðastliðnum. Var þá Bæjarráði Fjallabyggðar gert viðvart og það sendi í kjölfarið beiðni til Vegagerðarinnar um að koma steininum til fyrra horfs. Var erindinu þar vel tekið. Í síðustu viku réðust menn svo í verkið, fyrst með gröfu og síðar með öflugri vatnsslöngu Slökkviliðs Fjallabyggðar, í höndum Ámunda Gunnarssonar.

Álfkonusteinn fellur undir 3. grein laga um minningarminjar, en þau voru samþykkt á Alþingi 18. júní 2012. Fornleifar teljast þar hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri, svo sem álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð.

A.m.k. þrjár sögur tengdar Álfkonusteini hafa varðveist á prenti, ein frá seinni hluta 19. aldar, önnur frá því um 1930 og hin þriðja frá árinu 1972. Var hann mun meira áberandi í landslaginu áður heldur en nú er, eftir að vegarstæðinu var breytt. Í dag eru ekki margir sem kannast við hann, þótt fæddir séu og uppaldir þar nyrðra. Og það er líka ástæðan fyrir því, að hann lenti undir mold og grjóti. Enginn hreinsunarmanna vissi um þessar menningarminjar.

Hafði aldrei séð svona áður

„Þetta byrjaði þannig að lögreglan hringir til að tilkynna mér að hún sé búin að loka veginum á Hvanneyrarströndinni, í vestanverðum firðinum,“ segir Sveinn Zóphoníasson, einn af eigendum Báss hf., þegar hann rifjar upp hina erfiðu daga. „Þá hafði rignt stanslaust frá því um áttaleytið um kvöldið. Þetta var 27. ágúst í fyrra. Þá voru skriður teknar að falla í Herkonugilinu og fyrir ofan Sauðanes. Við hjá Bás aðhöfðumst ekkert fyrr en morguninn eftir. Ég fór þá með mann með mér og við trúðum ekki okkar eigin augum þegar við komum þarna út á hæðina og sáum svæðið í Selgilinu, því að maður hafði aldrei séð svona áður. Þegar við förum til baka hrasar hann í grindarhliði á leiðinni og slasar sig, þessi sem var með mér, og var óvinnufær í nokkra daga. Síðan er ákveðið að fara með tæki þarna út eftir en þegar við komum þangað er vatnsveðrið slíkt að við snerum við. Tækin stóðu bara þarna. Það var komið fram undir hádegi þegar þetta var og í hádeginu gerist það að Hvanneyraráin fer út úr, tekur sundur Hólaveginn og er byrjuð að flæða yfir Fossveginn. Þá hringir bæjarverkstjórinn í okkur og biður okkur að koma með gröfu til þess að redda einhverju. Þegar við komum með hana er áin búin að renna niður í bæ. Og þegar við erum að sækja vélina út á Hvanneyrarströndina sjáum við að það höfðu komið fleiri skriður niður Selgilið. Ég ákveð því að færa jarðýtuna, svo að eitthvað lendi nú ekki á henni, og er rétt sestur upp í og nýbúinn að setja í gang þegar kemur fylla niður gilið. Hún var eins og risastór kúla. Þegar hún kemur fram á flóðið splundrast hún og vatn flæddi yfir allt planið og suður veg og það fylgdi þessu bæði aur og grjót sem dreifðist yfir allt. Þannig að við flýttum okkur í burtu.“

Síðan var ráðist í Hvanneyrarána, unnið í henni, og ekkert farið út eftir fyrr en daginn eftir. Þá er kominn 29. ágúst.

Voru tíu daga að hreinsa veginn

„Þegar hér er komið sögu er hætt að rigna og við getum byrjað að hreinsa út á Hvanneyrarströnd,“ segir Sveinn. „Fulltrúar Vegagerðarinnar voru þá mættir á svæðið og lögðu línurnar um það hvernig þeir vildu að þetta yrði gert. Við sáum fljótlega að það þyrfti að fjölga vélum því að umfangið var mikið. Við bröltum svo með aðra vélskófluna yfir flóðið til að geta komið tveimur vélum að til að moka. Og þegar fer að líða á daginn, þegar við erum að koma úr kaffi, verðum við varir við það að startarinn í vélinni er að fara að gefa sig; við rétt komum henni í gang. Hún var því látin ganga alla nóttina, á veginum. Við fengum startara daginn eftir og gátum skipt um. Við vorum upp undir 10 daga að klára þetta verk, ef allt er talið, því þegar við vorum búnir að hreinsa veginn átti eftir að finna ræsið undir veginum og svo þurfti að fá vél frá Akureyri sem gat keyrt í gegnum ræsið og mokað út úr því, því það var alveg proppfullt af efni, í gegnum allt og upp úr.“

Vegurinn yfir Selgilið var illa farinn, það vantaði alveg kantinn að austanverðu, þar voru allir kaplar í lausu lofti, rafmagnsstrengir, sími, ljósleiðari og fleira, og Sveinn og félagar byrjuðu því á að koma kantinum í lag, settu fínefni yfir rörin svo að hægt væri í framhaldi af því að ýta skriðunni fram af.

„Það var enginn að hugsa um Álfkonusteininn á þessum tímapunkti, enda vissi enginn um hann. Þetta snerist allt um það hjá okkur að koma efninu á sem stystum tíma fram af brúninni. Það var enginn að pæla í neinu öðru., enda hafði enginn verið upplýstur um neitt,“ segir Sveinn.

Ofan við veginn, þar sem vatnið hafði runnið eftir vegrásinni, hafði það tekið með sér fínefni, svo að þar virtist eins og sandur á að líta. Tökumaður frá RÚV ætlaði að fara upp í skriðuna til að mynda, fór út í pyttinn og sökk með það sama upp í mitti. Honum var bjargað úr feninu litlu síðar.

„Það var mjög erfitt að vinna þetta, þetta var svo blautt, þetta var eins og lím, alveg nökkvaþungt, það rann vatn út úr öllu. Ég hef aldrei séð annað eins hér. Það hafa oft komið smá spýjur þarna niður, en aldrei neitt í líkingu við þetta.“

Í ljósi þess sem gerðist hafa bæjaryfirvöld verið hvött til að leita skipulega að minjum af þessum toga í landi Siglufjarðar, Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar og láta setja upp einhverjar viðeigandi merkingar þar hjá, til að fólk eigi auðveldara með að kynnast þessum arfi, sem í mörgum tilvika nær langt aftur í aldir.

Menn og álfar og huldufólk

Ýmsar sögur hafa í gegnum tíðina farið af samskiptum manna og álfa og huldufólks. Þar mætti nefna Álfhól í Kópavogi, en því er haldið fram að álfar hafi fjórum sinnum haft áhrif á framkvæmdir við hann, og svo Tröllaskarð í Hegranesi í Skagafirði, en Vegagerðin hætti við að sprengja klöpp þar árið 1978 eftir misheppnaðar samningaumleitanir við öfl úr öðrum heimi og eilíf skakkaföll af ýmsum toga. Í því sambandi er áhugavert að minnast þess sem aflaga fór hina afdrifaríku daga í ágústmánuði í fyrra og hér á undan var greint frá.

Í byrjun ágúst 1988 gerðist líka dálítið í firðinum, sem vert er að benda á. Í Morgunblaðinu 7. ágúst sagði um það:

„Álfhóll heitir hóll vestan flugvallarins á Siglufirði. Sú saga er til um þennan hól, að þar sé heygður ásamt gull kistli sínum Álfur bóndi sem búið hafi í Saurbæ og hvíli þau álög á hólnum að sé grafið í hann, fari eitthvað úrskeiðis í Siglufirði. 22. júlí var grafið fyrir útsýnisskífu á hólnum og síðan telja sumir að álögin hafi hrinið, þar sem ýmsar framkvæmdir hafi gengið illa í bænum og fleira gengið á afturfótunum.

Að sögn Matthíasar Jóhannssonar, fréttaritara Morgunblaðsins á Siglufirði, urðu gífurlegir vatnavextir í Siglufirði einum eða tveimur dögum eftir að útsýnisskífan var sett upp og hafi þau valdið spjöllum. Þá hafi ekkert veiðst, og gatnaframkvæmdir í bænum gengið frámunalega illa.

Búið var að undirbúa fimm götur í bænum undir malbik. Aðeins tókst að malbika eina vegna þess að malbikunarvélin bilaði skyndilega. Að sögn starfsmanna Loftorku, sem leggja malbikið, virðist vélin hálfónýt.

„Hér trúa margir því að álög séu á Álfhóli og sagt er að fyrir allmörgum árum hafi menn grafið í hólinn, en séð bæinn þá standa í ljósum logum,“ sagði Matthías.“

Og í Stúdentablaðinu mátti í apríl á þessu ári lesa:

„Árið 1999 var álfasteinninn Grásteinn við Grafarholt færður þegar þar var lagður vegur. Þáverandi vegamálastjóri sagði steininn færðan til af tveimur ástæðum; „annars vegar þar sem um skemmtilegt og nokkuð áberandi kennileiti sé að ræða, en hins vegar vegna sögusagna um álfabyggð í steininum.“

Þá var 70 tonna álfakirkja færð úr vegstæði Álftanesvegar í Gálgahrauni, ekki lengra síðan en árið 2015. “

Einnig sagði þar:

„Árið 1974 framkvæmdi Erlendur Haraldsson sálfræðingur könnun á þjóðtrú Íslendinga. Þessi könnun vakti mikla athygli innanlands sem utan. Einna mesta athygli vakti að þrátt fyrir að lítið hlutfall segðist trúa á tilvist álfa voru fáir tilbúnir að fullyrða að þeir væru ekki til. Sömu sögu var að segja af annars konar þjóðtrú, eins og fylgjum, berdreymi og framhaldslífi.

Á árunum 2006–2007 var síðan gerð önnur rannsókn á vegum þjóðfræðiskorar Háskóla Íslands. Um það bil 1000 svör bárust við síðari könnuninni. Um 40% þátttakenda voru karlar og um 60% konur. Skiptingin var nokkuð jöfn milli þéttbýlis og landsbyggðar og aldursdreifing var frekar jöfn. Í ljós kom að viðhorf landsmanna til álfa (og annarrar þjóðtrúar) hafði lítið sem ekkert breyst. Þrátt fyrir að aðeins 5% teldu sig hafa séð álf gátu aðeins 14% þátttakenda staðhæft að álfar væru óhugsandi.“

Sjá líka hér.

Eldri myndir: Sveinn Zóphoníasson og Vegagerðin.
Nýrri myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]