Hreiðurbögglar


Þegar Örlygur Kristfinnsson var að ganga æðarvarpið sitt í dag, vestan
flugbrautar, rakst hann á óvenjulegt hettumáfshreiður. Í því voru
nefnilega þrjú örverpi. Ástæðan fyrir
þessu er líklega sú, að kvenfuglinn er orðinn gamall og slitinn.

Örverpi eru þekkt meðal fugla, en afar sjaldgæft að rekast á svo mörg í einu og sama hreiðrinu.

Guðrún Kvaran íslenskufræðingur er með eftirfarandi fróðleik á Vísindavefnum:

?Upphafleg merking orðsins örverpi er ?lítið egg sem fugl verpir síðast, síðasta egg í hreiðri?. Fleiri orð eru notuð um hið sama, eins og hreiðurböggull og hreiðurbaggi. Örverpi er einnig notað um síðasta barn hjóna og mjög smávaxið afkvæmi. Upphafleg mun orðið hafa verið leitt af gamalli germanskri sögn *uz-werpan í merkingunni ?kasta burt?, samanber gotnesku uswairpan og fornháþýsku irwerfan í sömu merkingu.?

Orðin drútur, hreiðurböllur, hreiðurdrátur, hreiðurdrítur, hreiðurdrúður, hreiðurdrútur og hreiðursdrútur lúta að þessu sama.

Hér sést ofan í hreiðrið.

Efsta hettumáfseggið (í vinstri lófanum) er í eðlilegri stærð, fengið að láni úr næsta hreiðri,
en þessi neðri (í hægri lófanum) eru örverpin þrjú.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is