Hraðhleðslustöð komin í bæinn


Nýverið var hraðhleðslustöð sett upp á lóð Olíuverzlunar Íslands að Tjarnargötu 6 á Siglufirði. Þetta er fyrsta hraðhleðslustöðin sem sett er upp hér í bæ og jafnframt sú fyrsta sem Olís setur upp í landinu.

Vistorka á Akureyri sótti fyrir nokkru um styrk í Orkusjóð fyrir hönd Fjallabyggðar sem gaf Vistorku síðan umboð til þess að finna réttan aðila til þess að framkvæma þetta og nýta styrkinn. Ísorka og Olís urðu fyrir valinu.

Að sögn Sigurðar Ástgeirssonar, framkvæmdastjóra Ísorku er hraðhleðslustöðin tengd við hugbúnað Ísorku og er með gjaldtöku, bíleigendur geta valið að vera meðlimir hjá Ísorku og nota þá hleðslulykil eða þá að staðgreiða; á stöðinni eru upplýsingar um hvernig það er gert.

„Stöðin er sýnileg í appinu hjá okkur ásamt því að hún er sýnileg öllum rafbílaeigendum í heiminum,“ segir Sigurður. „Við tengjum hana við reikiveitur þannig að ferðamenn sem hingað koma, og annað hvort leigja sér rafbíl eða þá taka rafbílinn með í Norrænu, geta með einföldum hætti notað sitt app eða hleðslulykil frá sínu landi. Þetta er allt orðið samtengt við önnur kerfi. Gjaldtakan er bæði á tíma og kílóvattstund og er bara að rúlla þarna í alsjálfvirku kerfi.“

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is