Hollenskur verðlaunarithöfundur kominn með bók heim til Siglufjarðar


Íslandsvinurinn og barnabókahöfundurinn Marjolijn Hof, sem fædd er í Amsterdam í Hollandi árið 1956, hefur margoft komið hingað til lands, ferðast um hálendið og dvalið á gestavinnustofum listamanna, t.d. í Gullkistunni á Laugarvatni og í Herhúsinu á Siglufirði. Það var einmitt á Síldarminjasafninu á Siglufirði sem hugmyndin að nýjustu bók hennar kviknaði. Og ofan í lúkar í Tý SK 33, einum sýningargripnum í Bátahúsinu, sat hún árið 2010 og aflaði sér heimilda og hóf að skrifa söguna „De regels van drie“, eins og hún heitir á frummálinu.

Þegar Marjolijn hafði þekkst boð um að koma á barnabókahátíðina „Páfugl úti í mýri“ sem haldin var í Norræna húsinu í október síðastliðnum gafst henni tækifæri til að lengja dvöl sína hér á landi, skreppa norður og kynna nýju bókina sína fyrir siglfirskum börnum.

Nemendur í Grunnskóla Fjallabyggðar hafa reyndar lesið bók hennar „Minni líkur – meiri von“ sem kom út hjá Forlaginu fyrir nokkrum árum og fyrr á þessu ári fæddist sú hugmynd að koma á samstarfi milli hollenskra og íslenskra nemenda, þar sem  íslensku börnin fræddust um Holland með því að lesa „Minni líkur – meiri von“  og Hollendingarnir lærðu um Ísland í gegnum lestur bókarinnar „De regels van drie“. Sú bók fjallar um Twan og tvíburasystur hans, Lindu, sem hafa ferðast til Íslands með ömmu sinni og mömmu til þess að sækja langafa þeirra og fara með hann til Hollands og koma honum þar á elliheimili. Langafa grunar að ekki sé allt með felldu og er búinn að gera leynilega flóttaáætlun því frá Íslandi vill hann ekki fara. Systkinin standa frammi fyrir því að þurfa að taka erfiða ákvörðun – eiga þau að hjálpa honum við flóttann eða segja frá leyndarmálinu? Það er miður vetur og í hinu framandi og snjóþunga fjallalandi er glímt við vanda sem er ekki daglegt brauð hollensku unglinganna.

Nýja bókin og bókin „Minni líkur – meiri von“ hafa báðar fengið virt barnabókaverðlaun í Hollandi, sú fyrri hefur verið þýdd á 12 tungumál og standa vonir til að „De regels van drie“ verði þýdd á íslensku.

Nemendur í Het Palet skólanum, í bænum Hoogeveen, og nemendur 5. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar byrjuðu í september á þessu ári að lesa bækurnar og vinna verkefni úr þeim. Stofnuð var bloggsíða verkefnisins þar sem krakkarnir spyrja hvert annað spurninga um land og þjóð; sem dæmi má nefna höfðu hollensku börnin mikinn áhuga á að vita hvernig plokkfiskur væri. Verkefni eru unnin hjá myndmenntakennara og krakkarnir læra nokkur orð á hvoru tungumáli. Í heimsókn Marjolijn Hof til Siglufjarðar á dögunum kom hún í kennslustund með góðar gjafir frá Hollandi, og til baka fer hún með bækur um Ísland, harðfisk og hraunmola úr Holuhrauni, sem einn nemandinn færði henni handa samstarfsbekknum í Hollandi. Verkefninu lýkur nú í nóvember með skæpfundi bekkjanna.

Mikael Sigurðsson, einn nemenda í 5. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar, afhendir Marjolijn Hof mola úr Holuhrauni.

Mikael Sigurðsson, einn nemenda í 5. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar, afhendir Marjolijn Hof mola úr Holuhrauni.

Á Bókasafni Fjallabyggðar var efnt til kynningarfundar fyrir bæjarbúa. Sagt var frá samstarfsverkefninu, börn lásu úr bók höfundarins og voru verk hennar kynnt að öðru leyti.

Þar sem nú stendur yfir átakið „Allir lesa“ má benda lesendum frá 10 ára og upp úr að kynna sér þennan frábæra rithöfund og bæta bókinni „Minni líkur – meiri von“ á bókalistann sinn.

Mynd 1: Fengin af heimasíðu rithöfundarins.
Mynd 2: Guðný Róbertsdóttir.
Texti: Guðný Róbertsdóttir, Örlygur Kristfinnsson og Sigurður Ægisson | [email protected] 

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]