Elrisöngvari og fleiri

Nú er kominn sá tími ársins að mikið fari að bera á hrakningsfuglum sem koma gjarnan til Íslands á haustin fyrir áhrif vinda sem bera þá af leið. Hingað til Siglufjarðar koma alltaf einhverjir og er skemmst að minnast gjóðursins um þetta leyti í hitteðfyrra, og býsvelgsins þar á undan, en sú tegund hafði einungis sést einu sinni áður hér á landi.

Þann 12. október sá undirritaður tvo nýja haustgesti. Annar var hnoðrasöngvari, sem var í lerkitré á Hvanneyrarhólnum eitt augnablik, og hinn var öllu sjaldgæfari, ungur þyrnisvarri, en sú tegund hefur einungis sést hér á landi 16 sinnum; hann var í Skarðdalsskógi. Ekki náðist mynd af þeim fyrrnefnda og bara léleg af þeim síðarnefnda, en nóg til þess að fuglafræðingar náðu að greina hann.

Þorlákur Sigurbjörnsson bóndi í Langhúsum í Fljótum, sem er mikill fuglagrúskari, náði einum afar sjaldgæfum í mistnet í september, mældi hann allan eftir kúnstarinnar reglum og vigtaði og setti svo á hann þar til gert merki, númerað, frá Náttúrufræðistofnun Íslands og sleppti honum lausum. Þetta var elrisöngvari, sá tíundi fyrir Ísland. Sjá meðfylgjandi ljósmynd. Og þann 11. október var ungur gráhegri að snudda þar í kring.

Íbúar fjarðarins eru beðnir um að láta undirritaðan vita ef eitthvað torkennilegt af þessu tagi fer að bera fyrir augu á næstunni og fram eftir vetri.

Mynd: Þorlákur Sigurbjörnsson.
Texti: Sigurður Ægisson | [email protected]