Hljómar tengjast Siglufirði


Í dag er þess minnst að hálf öld er síðan Hljómar komu fram í fyrsta sinn, í Krossinum í Keflavík, 5. október 1963. Vorið 1964 léku þeir ásamt fleiri hljómsveitum í Háskólabíói, á fyrstu bítlatónleikunum, og þar slógu þeir í gegn. 

Um sumarið ferðuðust þeir um landið og komu til Siglufjarðar í ágúst. Þá stilltu þeir sér upp til myndatöku á bryggjum bæjarins, ásamt hinum siglfirsku Gautum. ?Við héldum hljómleika í Nýja bíói á Siglufirði þar sem hljómsveitirnar komu fram til skiptis fyrir fullu húsi og spiluðum saman á balli að Hótel Höfn um kvöldið,? segir Ragnar Páll Einarsson. ?Daginn eftir fór allt þetta fríða hljómsveitarlið akandi á þremur eða fjórum bílum ásamt fríðu föruneyti aðdáenda á enn fleiri bílum yfir Siglufjarðarskarð og Lágheiði til Ólafsfjarðar. Þar var leikurinn endurtekinn með hljómleikahaldi og balli á eftir.?
Einn af hinum upphaflegu Hljómum er Siglfirðingur. Það er Erlingur Björnsson, sem er fæddur á Siglufirði í nóvember 1944.

Um verslunarmannahelgina 2003 spiluðu Hljómar nokkrum sinnum á Siglufirði. Þá kom fram í Morgunblaðinu að Gunnar Þórðarson hefði leikið á Siglufirði með hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar, sennilega 1962, og að ?Hljómar spiluðu óhemju oft á Siglufirði á árum áður, fóru á vertíð þangað,? eins og þeir orðuðu það. 

Á myndunum frá sumrinu 1964 eru Hljómarnir Eggert Kristinsson, Erlingur Björnsson, Gunnar Þórðarson og Rúnar Júlíusson og Gautarnir Baldvin Júlíusson, Guðmundur Þorláksson, Jónmundur Hilmarsson, Ragnar Páll Einarsson og Þórhallur Þorláksson.

Texti: Jónas Ragnarsson  jr@jr.is.
Myndir: Ólafur Ragnarsson og Jónas Ragnarsson jr@jr.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is