Hjónabandssæla


Páll Helgason, engum líkur, fyrrverandi kennari og organisti og margt fleira
og núverandi hirðskáld Siglufjarðar, ef ekki Tröllaskaga alls, hefur ort um hinn sögulega viðburð gærdagsins, á Þorláksmessu á sumri, þegar
gengu að eigast í dýrðinni handan fjarðar þau Örlygur og Guðný.

   

Hjónabandssæla

Um Saurbæjarála og -síki,

sundfugla óðalsríki,

prestur vor prúður óð;

stígvélafullur hann starði

og staðfugla augum barði,

missir sá aldrei móð.

Tilsýndar tvo nam eygja,

tignarlegt hálsa reigja,

sýndist þar svanapar

úr fjarlægð ? en tæpt að trúa

og tilvistarsviðin brúa

með geistlegum glyrnum þar.

Sjónhverfing sú er virtist

í sólgliti honum birtist

sem Árósa ógift hjú;

þótt hempuna hefði’ ei nærri

og helgisiðunum fjærri,

uppfullur æru og trú

af lotningu yfir þau lagði

líknandi hendur og sagði:

?Ég lýsi’ ykkur löggilt hjú;

svo leikið nú lausum hala

um lautir og græna bala

og annist vel börn og bú!?

                                                                                              

Skáldið á góðum degi vorið 2008.

                                                                                                                        

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is