Hjólað fyrir Iðju/dagvist á Siglufirði


 

Dagana 21. júní til 24. júní mun Þórir Kr. Þórisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Fjallabyggð, fara á reiðhjóli frá Seltjarnarnesi til Siglufjarðar og um leið ætlar hann að safna fé fyrir Iðju/dagvist á Siglufirði, nánar tiltekið til kaupa á sérhæfðum búnaði í nýtt skynörvunarherbergi sem stendur nú tómt í nýjum húsakynnum Iðju/dagvistar við Aðalgötu 7 hér í bæ. Umrætt tæki mun kosta um eina milljón króna.

Hægt er að leggja söfnuninni lið með 500, 1.000, 2.000 eða 5.000 króna framlagi eða hærri upphæð, standi vilji til þess. Söfnunarreikningurinn er í Sparisjóði Siglufjarðar og er númer 1102-05-402699 með kennitölu 580706-0880. Guðmundur Guðlaugsson, fyrrverandi bæjarstjóri Siglufjarðar, er verndari þessa átaks.

Söfnunin er komin á Facebook undir yfirskriftinni: ?Hjólað Fyrir Iðju Dagvist.? Þar má finna nánari upplýsingar um ferðina sem og um Iðju/dagvist. Þar segir m.a.:

 

?Iðja/dagvist í Fjallabyggð veitir fólki þjálfun, umönnun, afþreyingu og vinnu við létt verkefni sem vegna fötlunar sinnar þurfa sérhæfða og einstaklingsmiðaða þjónustu. Iðja/dagvist starfar skv. lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og notendur eru eldri en 18 ára. Með þjálfun og hæfingu er dregið úr áhrifum fötlunar og færnin til þátttöku í daglegu lífi aukin. 
Markmið Iðju/dagvistar er að auka og/eða viðhalda færni og hæfni einstaklingsins, efla sjálfstraust, sjálfsvirðingu og sjálfsmynd hans. Í Iðju/dagvist njótum við augnabliksins, upplifum tilhlökkun, vellíðan og öryggi ásamt því að efla sköpunargleði okkar.?

Ekki er að efa að Siglfirðingar og aðrir muni taka þessari áskorun fagnandi og styðja dyggilega við bakið á Þóri og lofsverðu framtaki hans og verkefni.

Svona eiga menn að vera.

Þórir Kr. Þórisson á góðri stund.

Mynd: Aðsend.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is