Hippaball í kvöld


Nú er hippaball ársins að bresta á. Það verður nefnilega haldið að Ketilási í Fljótum í kvöld og fram á nótt. Blómálfarnir, þeir Ari Jónsson, Magnús Kjartansson og Finnbogi Kjartansson, leika fyrir dansi frá kl. 22.00-02.00. Aldurstakmark er, eins og jafnan áður, 45 ár, en að sjálfsögðu allir velkomnir í fylgd með fullorðum.

Ekki er að efa að þarna verður gaman.

Á baksíðu Morgunblaðsins á dögunum, nánar tiltelið 19. júlí, var skemmtilegt viðtal við þær systur, Margréti og Vilborgu Traustadætur, sem hafa verið aðaldrifjaðrirnar í þessu frá upphafi.

Það er svofellt:

Æskuárin rifjuð upp í gleði

? Hippaball haldið í Ketilási í fimmta sinn

?Þegar við keyrðum framhjá þessu fína samkomuhúsi í Ketilási í seinni tíð fannst okkur það vera synd að það væri ekki nýtt betur. Þá kviknaði sú hugmynd að endurvekja þá skemmtilegu stemningu sem alltaf skapaðist þarna í gamla daga. Við ákváðum því fyrir fimm árum að slá upp balli og það gekk svo vel að eftir það varð ekki aftur snúið,? segir Margrét Traustadóttir, en hún og Vilborg systir hennar standa fyrir hippaballi í samkomuhúsinu í Ketilási í Fljótum á laugardagskvöldið.

Er þetta fimmta árið í röð sem það er haldið, en hljómsveitin Blómálfarnir mun leika fyrir dansi. Hana skipa hinir landsþekktu tónlistarmenn Magnús Kjartansson, Finnbogi Kjartansson og Ari Jónsson og munu þeir flytja alla helstu smelli hippatímans.

Haldið í gömlum leikfimisal

Allur ágóði af ballinu rennur til viðhalds og uppbyggingar á samkomuhúsinu en það var reist árið 1926 og hýsti þá skrifstofur fyrir hreppinn, en varð svo síðar að skóla. Salurinn sem ballið er haldið í er frá árinu 1958 og var leikfimisalur skólans. Þeim systrum finnst það gott að geta stuðlað að viðhaldi hússins.

Dagskráin hefst kl. 10 um morguninn en þá verður markaður þar sem fólk getur skráð sig og selt ýmsa hluti tengda og ótengda hippatímanum. Margrét og Vilborg verða m.a. með hippamussur og ekta hippabönd frá frumbyggjum Bandaríkjanna á boðstólum. Markaðurinn verður til kl. 15 en svo hefst ballið kl. 22 um kvöldið með því að allir haldast í hendur á Ketilástúni, mynda ?peace?-merkið og syngja saman. Síðan er dansað til kl. 2 um nóttina.

Tjaldsvæði er á staðnum með rafmagni og öllum helstu þægindum. Aldurstakmarkið á tónleikana er miðað við 45 ára og eldri, en í raun er öllum leyft að koma, svo fremi að þeir séu ?í fylgd með fullorðnum?.

Þær systur rifja upp að á böllunum í gamla daga hafi stundum komið upp slagsmál á milli Siglfirðinga og Ólafsfirðinga. Það er nú löngu liðin tíð. ?Þetta er mikil hamingjustund fyrir þau sem mæta, að fá að rifja upp þessa gömlu tíma og upplifa þessa frábæru stemningu. Þegar eitt ball er búið er strax farið að hugsa um það næsta,? segir Margrét.

Inngangstexti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

Viðtal: Morgunblaðið (Stefán Gunnar Sveinsson | sgs@mbl.is). Endurbirt hér með leyfi.

Veggspjald: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is