Hingað og ekki lengra


Á gríðarfjölmennum borgarafundi í Allanum í kvöld, þar sem hvert sæti var skipað og margir stóðu aukinheldur, kom fram vægast sagt megn óánægja með þær niðurskurðarhugmyndir sem finna má í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2011 og boðaðar hafa verið.

Ingvar Erlingsson, forseti bæjarstjórnar, sem stjórnaði fundi, greindi frá því í upphafi að þann 7. október hefði verið haldinn aukafundur í bæjarstjórn, þar sem bara eitt mál hefði verið á dagskrá, staða heilbrigðismála í Fjallabyggð. Þar hafi að lokum verið gerð eftirfarandi ályktun:

Bæjarfulltrúar hafa miklar áhyggjur af fyrirhuguðum breytingum á þjónustu við bæjarbúa og ljóst er að svo miklar breytingar til lækkunar á framlögum ríkisins mun hafa veruleg áhrif á mikilvæg störf í Fjallabyggð. Bæjarstjórn lýsir yfir fullum stuðningi við þessar tvær mikilvægu stofnanir í Fjallabyggð og mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði.

Að því loknu tók Konráð Baldvinsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Fjallabyggðar, til máls og fór yfir fjárveitingar til heilbrigðisstofnunarinnar og flutti svo hugleiðingu um heilbrigðismál við utanverðan Eyjafjörð. Kom þar m.a. fram að framlag ríkisins til stofnunarinnar á næsta ári sé áætlað 376,7 milljónir króna að teknu tilliti til verðlagsbreytinga og sértekjur áætlaðar um 18,4 milljónir. Framlagið skiptist þannig að til hjúkrunar- og sjúkrasviðs eru áætlaðar 196,7 milljónir og heilsugæslu 174,3 milljónir. Samtals gera þetta 391,5 milljón. Rekstrarkostnaður þessa árs verður hins vegar um 500 milljónir. Niðurskurður í fjárlagatillögum næsta árs sé um 80 milljónir nettó eða 17.7%; þar af sé framlag til hjúkrunarsviðs skorið niður um 39,2 milljónir, eða 20,4%, og sjúkrasviðs um 51,1 milljón, eða 54,1%. Samtals er niðurskurður á hjúkrunar- og sjúkrasviði því 90,3 milljónir króna. Framlag til heilsugæslu er hækkað um 10,3 milljónir, eða 6,3%, og verður því 174,3 milljónir.

Á síðasta ári var Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar gert að skera niður um 56,5 milljónir og Heilsugæslu Ólafsfjarðar um 3 milljónir; á þessu ári sameinaðri stofnun að auki um 39,6 milljónir. Bæði árin því samtals 91,1 milljón. Gangi tillögur ríkisstjórnarinnar eftir mun samanlagður niðurskurður á þremur árum nema 179,1 milljón króna.

Ef skera á niður vinnulaun um 90 milljónir á næsta ári þýðir það að stöðugildum fækkar um 15-18, eða starfsfólki um 20-25. Fækka á hjúkrunarrúmum um 7, úr 27 í 20, og sjúkra- og bráðarúmum úr 6 í 3. Fyrir 10 árum eða svo voru til samanburðar 40 rúm skráð á stofnunina og nýting hátt í 100%. Ef áætlanir ganga eftir hefur rúmum fækkað um 17 á ekki lengri tíma. Á móti fækkun á að koma aukin heimahjúkrun.

Sagði Konráð að dapurlegt væri að horfa upp á það að stofnanir úti á landi tækju á sig meirihluta af þeim niðurskurði sem ætlaður væri í heilbrigðiskerfinu. Landsbyggðin væri ekki að skorast undan því að taka á sig byrðar, en þær þyrftu að vera í samræmi við þá þjónustu sem veita ætti á hverjum stað. Kvaðst hann vona að í meðferð Alþingis á fjárlögum yrðu gerðar þær breytingar sem gerðu stöðunum kleift að halda uppi góðri heilbrigðisþjónustu til framtíðar eins og hingað til.

Ólafur Marteinsson, formaður bæjarráðs, steig næstur í pontu og vitnaði í upphafi máls síns í grein Sigurðar Guðmundssonar fyrrum landlæknis, en hana er að finna í Morgunblaðinu í dag og þar sem orðrétt sagði:

Hlutverk stjórnmálamanna um þessar mundir er ekki auðvelt, og krafa um réttsýni og fagmennsku í vinnubrögðum sterk. Þess vegna hefur aldrei sem nú verið þörf á samstöðu og samheldni í þeirra röðum. Þar valda þeir okkur áfram vonbrigðum, sundurlyndið er algert. Traust okkar á þeim fellur enn eins og steinn í vatni. Það er miður.

Sagði Ólafur að menn hefðu fullan skilning á því að fjármunir væru af skornum skammti nú um stundir og að hagræða þurfi og spara. Það sé veruleikinn sem einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög standi frammi fyrir, ekki síður en ríkið. En aðferðin sem ríkisstjórnin viðhafi sé hins vegar óskiljanleg. Þess vegna séu viðbrögðin úti í samfélaginu, um land allt, eins og þau eru.

Las hann síðan upp ályktun frá fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar fyrr í dag, sem var svohljóðandi:

Bæjarstjórn Fjallabyggðar mótmælir harðlega boðuðum niðurskurði á heilbrigðisþjónustu í Fjallabyggð og því að um 80% af niðurskurði á heilbrigðisþjónustu á landsvísu eigi sér stað utan höfuðborgarsvæðisins. Ekki hefur áður verið vegið jafn harkalega að heilbrigðisþjónustu við íbúa minni sveitarfélaga á landsbyggðinni. Niðurskurðurinn mun hafa mjög neikvæð áhrif á heilbrigðisþjónustu í sveitafélaginu. Kostnaður sjúklinga og aðstandenda við að sækja þjónustuna mun og hækka verulega. Vandséð er hver ávinningur verður af boðuðum breytingum og átelur bæjarstjórn Fjallabyggðar vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Bæjarstjórn Fjallabyggðar telur vænlegra til árangurs við núverandi aðstæður að vinna að samvinnu og/eða sameiningu heilbrigðisstofnanna á landsbyggðinni með það fyrir augum að verja heilbrigðisþjónustuna en lækka jafnframt sameiginlegan kostnað.

Að því búnu tóku þingmenn kjördæmisins til máls, einn af öðrum, en mættir voru Björn Valur Gíslason, Birkir Jón Jónsson, Kristján L. Möller og Kristján Þór Júlíusson. Eftirtektarverðust þar voru orð Kristjáns L. Möller um að í reiknilíkön og exelskjöl heilbrigðisráðuneytisins vanti mannlega þáttinn.

Valþór Stefánsson, framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar, fór síðan yfir það hvað muni breytast hér, nái þessar hugmyndir ríisstjórnarinnar fram að ganga, og var það ófögur mynd sem hann dró þar upp.

Kristín Úlfsdóttir, sjúkraliði, áréttaði margt af því sem Valþór hafði sagt, og bætti því við, að líðan þess fólks sem nú ynni hjá Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar, og ætti yfir höfði sér að fá uppsagnarbréf á næstunni, væri ?djöfulleg: kvíði, hræðsla og óvissa?. Nefndi hún, að verði fjárlögin samþykkt óbreytt muni það hafa mikil áhrif á bæjarfélagið, jafnt í austri sem vestri, og alla á landsvísu. Þjónustan muni skerðast mikið, flytjast inn á Akureyri, sem ráði þó engan veginn við það sem nú er í gangi. En allt sé þetta vegna þess, að Héðinsfjarðargöngin séu orðin að veruleika. Vandinn sé hins vegar sá, að þau bara leysi ekki allt. Hvíldarinnlagnir fyrir aldraða muni leggjast af, lyf um kvöld og helgar verði ekki afgreidd á Siglufirði, lyfjagjafir utan opnunartíma heilsugæslu falli niður, innlagnir hér eftir aðgerðir á öðrum spítölum muni heyra sögunni til, konur sem liggja vilji í heimabyggð eftir fæðingu fái það ekki og biðlistar verði óumflýjanlegir vegna fækkana á rúmum í langlegum. Álagið innanhúss, sem hafi aukist mikið undanfarin ár, muni verða enn meira. Eða í sem fæstum orðum: starfsfólki muni fækka og þjónustan verða minni. Og að endingu sagði hún, og uppskar mikið lófaklapp fyrir: ?Við eigum rétt á 100% heilbrigðisþjónustu og hana viljum við fá.?

Bogi Sigurbjörnsson, fyrrverandi skattstjóri Norðurlandsumdæmis vestra, sagðist fyrr hafa átt von á dauða sínum en líta þær tölur sem í fjárlagafrumvarpi ársins 2011 sé að finna. Það væri alveg með ólíkindum hvernig stjórnvöld gætu leyft sér að setja svona fram, og segja svo: ?Ja, þetta verður kannski eitthvað lagað.?

Hann kvaðst einfaldlega ekki sjá hvað muni sparast með þeim breytingum sem ríkisstjórnin hafi boðað. Ekki hætti fólk að veikjast, og ekki hætti læknar að koma því inn á spítala, taka á móti því og þjónusta það á allan hátt. Svo sé það vitað mál, að sjúkrahússpláss á Akureyri og á Landspítalanum sé 50% dýrara en í hinum dreifðu byggðum, svo að þetta gangi einfaldlega ekki upp. Í þessu felist hins vegar mikil óþægindi og ýmsar hættur, sem ráðamenn séu ekki enn búnir að átta sig á.

Og hann brýndi fundinn að lokum og sagði: ?Við skulum taka höndum saman, ekki bara hér í Fjallabyggð, heldur fara hringinn, alveg frá Reykjanesi og norður um, allt til Selfoss, og segja: ?Hingað og ekki lengra.? Þetta er gjörsamlega óforsvaranlegt og ekki Íslendingum bjóðandi.?

Samstöðuganga lagði upp frá Heilbrigðisstofnuninni kl. 20.30 í átt að fundarstað, sem var í Allanum.

Andrés Magnússon yfirlæknir var auðvitað í fylkingarbrjósti.

Hópurinn tilbúinn.

Á Túngötunni, við Hólakot.

Og framan við gamla sparisjóðshúsið.

Ingvar Erlingsson, forseti bæjarstjórnar Fjallabyggðar, stjórnaði fundi

og gerði það vel.

Hér má líta nokkur skiltanna.

Konráð Baldvinsson.

Ólafur Marteinsson.

Andrés Magnússon.

Björn Valur Gíslason.

Birkir Jón Jónsson.

Kristján L. Möller.

Kristján Þór Júlíusson.

Slagorðin sögðu það sem segja þurfti.

Þarna var fjölmenni.

Og fólk alvörugefið, og ekki að furða.

Sumir þungt hugsi.

Valþór Stefánsson.

Kristín Úlfsdóttir.

Bogi Sigurbjörnsson.

Jóhann Sv. Jónsson skammaði alþingismenn

og var óvenju fljótur að því.

Sigurbjörg Bjarnadóttir minnti á,

að Fljótamenn vilja geta sótt hingað til læknis.

 

Ólafur Jónsson spurði fulltrúa ríkisstjórnarinnar

hvort uppsagnarbréf yrðu send fólki um komandi mánaðamót.

Kristján L. Möller svaraði því til, að það yrði ekki gert fyrr en

Alþingi væri búið að samþykkja fjárlögin.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is