Hettumáfurinn kominn


Hettumáfurinn er kominn í Siglufjörð. Lítill hópur var í Langeyrarhólmanum nú áðan og nokkrir fuglar sveimandi yfir Leirunum.

Árið 2013 kom hann 27. mars.

Stelkur og heiðagæs eru mætt í Fljótin.

Hettumáfurinn er minnstur og grennstur máfategunda okkar. Hann var áður fyrr eingöngu í Austur-Evrópu og Asíu en á síðustu hundrað árum er útbreiðsluaukningin orðin mikil norður á bóginn. Ástæðan er talin vera hvort tveggja í senn, aukið fæðuframboð í tengslum við samfélagsþróun manna á 20. og 21. öld (eins og t.d. risastórir sorphaugar, aukinn fiskúrgangur og nýjar aðferðir í landbúnaði) og svo hlýnandi veðrátta á norðurslóðum. Varpheimkynnin nú eru svæðið frá Íslandi um Færeyjar, Írland, Bretland, Danmörku, Suður-Skandinavíu og um Mið- og Suður-Evrópu og Asíu. Mun hann í dag vera orðinn algengasti máfur víðast hvar í Evrópu.

Tegundin hóf varp í Finnlandi snemma á 19. öld, í Færeyjum árið 1848 og í Noregi árið 1867. Hér á landi uppgötvaðist fyrsta hreiðrið árið 1911, við Stokkseyri, um 1930 við Þingvallavatn og á Innnesjum (við Rauðavatn). Nú er fuglinn kominn um land allt, reyndar við misjafnan orstír. Í Vestur-Þýskalandi (á strönd Norðursjávar) nam hann land árið 1931, á Spáni og Ítalíu árið 1960, á Grænlandi 1969 og á Nýfundnalandi árið 1977, að eitthvað sé nefnt.

Hann verpir aðallega í flötu landi, jafnt í litlum byggðum og stórum, yfirleitt í nálægð vatns. Hettumáfsvörp eru, líkt og kríuvörp, afar óstöðug; ein hverfa og önnur myndast. Eins geta verið miklar sveiflur í tölu varppara í gömlum vörpum.

Íslenski hettumáfurinn er að verulegu leyti farfugl sem heldur til Evrópustranda undir vetur og eitthvað til austurstrandar Norður-Ameríku líka. Margir fuglanna halda sig þó hér við land, einkum við Suðvesturland, Norðurland og Austurland.

Hvaðan þessir eru að koma er því óvíst. En vera þeirra hér nú er engu að síður enn eitt táknið um að vor og sumar séu innan seilingar.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is