Heildarkostnaður 14,2 milljarðar


Vegagerðin segir að í umræðu um Héðinsfjarðargöng hafi komið upp villandi upplýsingar um kostnað við göngin og samanburð á upphaflegri áætlun og endanlegri útkomu. Uppreiknuð upphafleg áætlun sé 12,1 milljarður króna en uppreiknaður heildarkostnaður hafi numið 14,2 milljörðum króna.

Segir að í upphaflegri áætlun hafi verið gert ráð fyrir að heildarkostnaður við Héðinsfjarðargöng yrði 7,6 milljarðar króna en áætlunin hafi verið gerð í janúar 2006.

Uppreiknað með meðalverðlagi ársins 2010 líkt og gert hafi verið í skriflegu svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn á Alþingi um kostnað við Héðinsfjarðargöng og tvöföldun Reykjanesbrautar reiknist upphafleg áætlun vera 12,1 milljarður króna.

Heildarkostnaður við byggingu Héðinsfjarðarganga hafi numið 12 milljörðum króna á verðlagi hvers tíma en uppreiknað með meðalverðlagi 2010 reiknist sá kostnaður 14,2 milljarðar króna.

?Aukinn kostnaður við gerð Héðinsfjarðarganga, þ.e.a.s. 2,1 milljarður króna miðað við upphaflegu áætlunina, skrifast fyrst og fremst á að vatnsagi í göngunum, sérstaklega Ólafsfjarðarleggnum, reyndist miklu mun meiri en reiknað var með. Einnig varð nokkur kostnaður af efnahagshruninu 2008,? segir Vegagerðin.

Sjá líka hér.

Inni í Héðinsfjarðargöngum.

[Þessi frétt birtist upphaflega á Mbl.is í dag kl. 13.53. Endurbirt hér með leyfi, en önnur mynd notuð.]

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Texti: Mbl.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is