Héðinsfjörður óendanlegur brunnur yrkisefna


Á bls. 30 í Morgunblaðinu í fyrradag er sagt frá málverkasýningu sem Sigtryggur Bjarni Baldvinsson, fæddur 1966, opnaði svo í Reyjavík í gær. Héðinsfjörður kemur þar við sögu. Tíðindamaður hafði samband við listamanninn og spurði hann m.a. út í þetta, sem og hverra manna hann væri.

„Ég er Akureyringur að uppruna, búsettur í Reykjavík, pabbi var skólastjóri í Gagganum á Akureyri og afi, Jóhannes, skipstjóri og seinna úrgerðarstjóri hjá KEA, langafi hreppstjóri í Flatey á Skjálfanda og mamma, Róshildur, dóttir Tryggva (Sigtryggs) rakara sem klippti fólk í 60 ár, mest á Akureyri en einnig standandi á kassa á síldarárunum á Sigló,” segir Sigtryggur.

„Tenging mín við Héðinsfjörð  er sú að nokkru fyrir hrun þegar peningar virtust vaxa á trjánum keyptum við konan mín, Tinna Gunnarsdóttir, Magnússonar, Gamalíelssonar útgerðarmanns frá Ólafsfirði, ásamt bróður Tinnu og konu hans jörðina Möðruvelli í Héðinsfirði. Þetta gerðum við eftir að hafa gengið yfir skörðin í dalinn fyrir göng og heillast algerlega af gróðrinum og öllu vatninu, gróskunni, bleikjunni og friðnum sem þarna ríkir.

Við höfum ekkert gert þarna sem aðrir geta ekki gert, farið í útilegur, týnt ber og veitt fisk að sjálfsögðu með veiðileyfi í vasanum, kvittað af Bjarna málara. Það stendur ekki annað til á þessari fallegu jörð en að ganga varlega um enda mikil gersemi.

Ég er listmálari, hef haldið um 30 einkasýningar og haft þetta að aðalstarfi síðan ég kláraði námið mitt í Frakklandi 1994. Náttúrufyrirbrigði, svo sem rennandi vatn og ósnortnar blómabrekkur, hafa verið aðal viðfangsefni mitt í listinni og Héðinsfjörður óendanlegur brunnur yrkisefna af þeim toga. Þaðan eru mörg málverk og vatnslitamyndir eftir mig. Út af fyrir sig gæti ég vel hugsað mér að mála bara myndir úr firðinum góða það sem eftir er.”
Sjá nánar hér.

Eitt verkanna á sýningunni.

Eitt verkanna á sýningunni.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is