Héðinsfjarðartrefillinn kominn í Ráðhúsið


Í gær, 11. janúar, var komið með Héðinsfjarðartrefilinn í Ráðhúsið í Reykjavík, degi á eftir áætlun, enda hafa snjóþyngsli hindrað samgöngur frá Akureyri, þar sem trefillinn var sýndur í Menningarhúsinu Hofi. Trefillinn verður til sýnis í austursal Ráðhússins til 22. janúar. Virka daga er opið kl. 8-19 en kl. 12-18 um helgar.

Á upplýsingaspjaldi er sagt að þetta sé lengsti trefill landsins og að hann hafi tengt Siglufjörð og Ólafsfjörð í gegnum fjöllin þegar Héðinsfjarðargöngin voru vígð í október. Að sýningunni lokinni verður trefillinn fluttur norður í Fjallabyggð, bútaður niður og seldur til styrktar góðgerðarmálum. ?Þetta var það sem ég, höfundur þessa listaverks, áformaði strax við byrjun verksins,? segir Fríða Gylfadóttir á upplýsingaspjaldinu. ?Það er mér mikils virði að sjá draum minn verða að veruleika.?

Þegar tíðindamaður Siglfirðings.is leit við í Ráðhúsinu í hádeginu í gær var Jón Gnarr borgarstjóri að skoða trefilinn og leist vel á hann.

Fríða Gylfadóttir er ánægð með að trefillinn er nú kominn ?suður? þar sem margir Siglfirðingar búa.

Trefillinn var 11,5 kílómetra langur áður en farið var með hann í Héðinsfjörð 2. október 2010.

Þegar á reyndi tognaði úr honum og hann náði alla 17 kílómetrana milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.

Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík við Héðinsfjarðartrefilinn í Ráðhúsinu. Hann setti hluta af treflinum um hálsinn.

Fánalitirnir njóta sín vel í treflinum.

Stór hnykill setur svip á sýninguna í Ráðhúsinu. 

Fjallabyggð eins og hún birtist á stóra Íslandslíkaninu í vestursal Ráðhússins.

Texti og myndir: Jónas Ragnarsson
| jr@jr.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is