Héðinsfjarðargöngin stækkuðu markaðssvæðið


SR-vélaverkstæði á Siglufirði byggir á traustum grunni, fyrirtækið var stofnað árið 1935 og var lengst af sjálfstæð rekstrareining innan Síldarverksmiðja ríkisins, síðar SR-mjöls, en er nú í eigu starfsmanna verkstæðisins og nokkurra annarra aðila. Auk vélaverkstæðis rekur fyrirtækið byggingavöruverslun á Siglufirði. Ólafur Sigurðsson véltæknifræðingur er framkvæmdastjóri. Hann segir að starfsmenn séu um tuttugu, flestir iðnlærðir.

?Hér er löng hefð fyrir málmsmíði. Meðal verkefna má nefna uppbyggingu og viðhald í loðnuverksmiðjum, viðhald og nýsmíði í skipum og fiskvinnslum. Segja má að ryðfrítt stál sé okkar sérfag og við höfum smíðað hundruðir snigla, varmaskipta og aðra hluti sem eru úr ryðfríu stáli.?

Ólafur segir að tilkoma Héðinsfjarðarganga breyti miklu fyrir starfsemi fyrirtækisins.

?Þegar göngin voru tekin í notkun stækkaði markaðssvæði okkar verulega. Núna er í raun ekkert mál að sinna verkefnum í Eyjafirði, við höfum til dæmis unnið mikið fyrir Becromal í Krossanesi. Þegar göngin voru ekki til staðar þurftu starfsmenn okkar þar að aka nærri 200 kílómetra til að komast heim til sín, ef þeir voru að vinna á Akureyri. Í dag eru um 70 kílómetrar á milli staðanna. Á móti má segja að fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu geta með auðveldari hætti boðið í verk á Siglufirði og þá er bara að standa sig og bjóða gott verð og þjónustu.?

Ólafur segir að verkefnastaðan sé þokkaleg og hann er vongóður um að hjól atvinnulífsins fari að snúast hraðar en undanfarin misseri.

?Iðnfyrirtækin hér í Fjallabyggð hafa þróað með sér margvíslega samvinnu, þannig að saman getum við boðið í alls konar verkefni. Hér er verkþekking á nokkuð háu stigi, þannig að ég leyfi mér að vera bjartsýnan á framtíðina.?

Ryðfrítt stál er sérgrein SR-vélaverkstæðis á Siglufirði.

Héðinsfjarðargöngin voru tekin í notkun í haust.

Myndir og texti: Afmælisblað Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, sem út kom í dag og er dreift á félagssvæðinu, sem nær frá Grenivík til Fjallabyggðar. Greinin ber þar yfirskriftina ?SR-vélaverkstæði á Siglufirði: Héðinsfjarðargöngin stækkuðu markaðssvæðið?.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is