Héðinsfjarðargöng gagnast fleirum en heimamönnum


Morgunblaðið birtir reglulega pistla fréttaritara sinna, í þætti sem nefnist Úr bæjarlífinu.
Er þar reynt að bregða upp myndum úr heimabyggð og því sem fólk úti um
land er að fást við hverju sinni.
Þetta á að vera stutt og hnitmiðað,
ekki fleira en 2.000 slög. Síðasti pistill héðan var þar 4. janúar en í
dag var komið að Siglufirði aftur og nú reynt að spanna það helsta frá janúar og
hingað. Flest ef ekki allt hefur þó verið til umfjöllunar á
Siglfirðingi.is áður.

En textinn var sumsé þessi:

 • Peningalyktin heyrir nú sögunni til hér, því stóra fiskimjölsverksmiðjan, sem er sú síðasta í þessum fyrrverandi helsta síldarbæ landsins, hefur verið seld til útlanda.

 • 
Nýr sundlaugargarður var tekinn í notkun á Ólafsfirði í byrjun árs, með tveimur glæsilegum vatnsrennibrautum.
 • 
Þann 28. janúar var sólardeginum fagnað í Siglufirði. Þá hafði ekki sést til sólar í 74 daga.
 • 
Héðinsfjarðargöng gagnast fleirum en Siglfirðingum og Ólafsfirðingum. Í þrígang – 30. janúar, 6. mars og 18. mars – hefur Öxnadalsheiði lokast en verið fært norðurleiðina.
 • 
Í febrúarbyrjun vann ónefndur Siglfirðingur tæpar 16 milljónir í Víkingalottóinu.
 • 
Menningarnefnd hefur valið Örlyg Kristfinnsson bæjarlistamann Fjallabyggðar 2011.
 • 
Árið 2010 fæddust 20 börn með lögheimili í Fjallabyggð. Eins og á landinu í heild hefur fæðingum heldur fjölgað allra síðustu ár, en þær voru aðeins 14 fyrir fimm árum. Siglfirðingar, 90 ára eða eldri, eru 15 talsins.
 • 
Unnið er að uppbyggingu tveggja 9 holu golfvalla í sveitarfélaginu. Leggja á fjármuni í endurbætur á golfvellinum í Ólafsfirði og hefja uppbyggingu nýs golfvallar við skógræktina í Hólsdal í Siglufirði.
 • Siglfirsku Alparnir eru að verða eitt aðal aðdráttaraflið yfir veturinn hjá ferðafólki og lætur nærri að 40% af gestum komi af Eyjafjarðarsvæðinu og stöðug aukning er ár frá ári af gestum frá suðvesturhorninu. Gestir eru að meðaltali um 11 þúsund.

 • 
Skákþing Norðlendinga 2011 var haldið á Siglufirði 8.-10. apríl. Norðurlandsmeistari varð Áskell Örn Kárason.
 • Á sunnudaginn var, 10. apríl, tók frjálsíþróttakappinn Sigurjón Sigtryggsson þátt í Íslandsmóti fatlaðra í frjálsum íþróttum en mótið fór fram í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal í Reykjavík. Sigurjón keppti í fjórum greinum að þessu sinni í flokki 16-17 ára og kom heim hlaðinn verðlaunum. Hann bar sigur úr býtum í þremur greinum: 60 metra hlaupi, 200 metra hlaupi og kúluvarpi og varð annar í langstökki.

 •  Norðursigling ehf. er að hefja hvalaskoðunarferðir frá Ólafsfirði á næstunni.

Siglufjörður eins og hann leit út á föstudag, 14. apríl, eftir að óvænt og snögg él höfðu gengið yfir.

Sólin er hér farin að skína á ný og tekin að bræða það sem úr efra kom.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is