Haustvindar bera með sér flækingsfugla


Margur torkennilegur fuglinn hefur verið að sjást þessar vikurnar á Íslandi, eins og jafnan gerist á þessum árstíma, samanber turnfálkann, sem leitaði skjóls í Sigurbjörgu ÓF-1 á dögunum, þar sem hún var á Langanesgrunni. Eru þar á ferðinni gestir frá útlöndum, aðallega Evrópu, sem borist hafa með kröppum lægðum yfir Atlantsála og upp hingað, hafa sumsé villst af leið úr varpheimkynnum sínum og yfir á vetrarslóðir sunnar í álfunni.

Enn sá algengasti er þessi á meðfylgjandi ljósmynd, sem tekin var á Hvanneyrarhólnum á Siglufirði í fyrradag. Þetta er hettusöngvari, karlfugl. Hann er á stærð við auðnutittling og var áður fyrr gjarnan nefndur munkur, af hettunni. Þetta er skógarfugl, heldur aðallega til í lauftrjám. Kvenfugl var þarna líka og einn svartþröstur.

Samkvæmt gamla íslenska misseristalinu er haustinu að ljúka. Fyrsti vetrardagur heilsar á morgun, laugardaginn 25. október. Er fólk hvatt til að aðstoða smáfuglana þegar jarðbönn eru, kasta einhverju ætilegu til þeirra. Margir þeirra eru skordýraætur, en borða ávexti, s.s. epli og perur, og hvers kyns matarafganga, þegar annað fæst ekki í náttúrunni. Finkur þiggja hins vegar fræ.

Brauð og eitthvert feitmeti er svo allherjarveisla á línuna.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

 

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is