Haustið er tími sveppanna


Haustið er tími sveppanna, eins og alþjóð veit, og þau eru mörg hér á landi – raunar sífellt fleiri – sem nýta sér þá til matar. Tröllaskagi er ágætlega fallinn til þeirrar iðju; kóngssveppur (Boletus edulis) er t.a.m. í Almenningunum, og í Héðinsfirði er m.a. að finna afar sjaldgæfa tegund sem nefnist rauðhetta (Leccinium versipelle).

Örfá kver hafa til þessa verið gefin út til að auðvelda fólki greiningu, en senn kemur á markaðinn alvöru rit um efnið, Sveppabókin, eftir Helga Hallgrímsson náttúrufræðing, sem hefur unnið að henni síðan um 1990. Hún verður um 600 bls. í brotinu 170 × 240 mm og í henni mörg hundruð skýringarmyndir og litmyndir af íslenskum sveppum sem höfundur, Hörður Kristinsson grasafræðingur o.fl. hafa tekið.

Í fyrri hluta bókarinnar er ágrip af almennri sveppafræði, umfjöllun um matsveppi og eitursveppi, ræktun matsveppa, og yfirlit um sögu svepparannsókna á Íslandi. Í síðari hluta er greint frá meginflokkum sveppa og fjölmörgum íslenskum tegundum lýst í máli og myndum, með áherslu á nytjasveppi, einnig þá sem skaðað geta ræktaðar plöntur, dýr og menn, afurðir þeirra eða matvæli. Einnig er getið um nokkrar sérlega athyglisverðar, erlendar tegundir.

Í kynningarbæklingi um hana segir: ?Sveppabókin er ætluð almenningi jafnt sem fræðimönnum og vonandi geta flestir fundið þar eitthvað áhugavert, því að sveppir eru ekki bara til matar, heldur eru þeir einn af grundvallarþáttum lífríkisins. Þá er næstum alls staðar að finna þar sem eitthvert líf getur þrifist. Þeir mynda svepprætur með blómplöntum og trjám og án þeirra væri skógrækt á Íslandi ekki möguleg. Þeir eru stofninn í fléttum eða skófum, sem vaxið geta á beru grjóti, og því fá fléttur líka sinn kafla í bókinni.?

Undirritaður hefur séð þessa bók í umbroti og getur vottað að þar er á ferðinni rit sem ekki verður toppað næstu áratugina.

Í Morgunblaðinu í dag, á bls. 25, er ljósmynd af sveppum og sést Esjan í baksýn. Tegundin nefnist Ullblekill. Siglfirðingur.is hefur fengið leyfi til að birta það sem segir um hana í hinni væntanlegu bók. Og það er svofellt:

 

Ullblekill  Coprinus comatus

Stórvaxinn, gráhvítur, með ulldúskóttri, keflislaga hettu. Hetta 2-6 sm breið og 5-12 sm há, egglaga fyrst, síðan klukku- eða keflislaga, alþakin gráhvítu, ullkenndu lagi sem myndar dúska með aldri, er brettast upp og verða brúnleitir í oddinn; kúfur oft gulbrúnn en barð rauðleitt. Fanir þunnar og breiðar, liggja þétt saman eins og blöð í bók og lykja fast um stafinn, hvítar í fyrstu, síðan rauðleitar, að lokum svartar, og færast þessir litir upp eftir þeim; breytast að lokum í blekvökva neðan frá. Stafur 10-20 (30) × 0,5-1,5 sm, holur, hvítur, fínrákaður, stundum með kragavotti neðantil. Hold hvítt, lint, með þægilegu bragði og lykt. Gró möndlulaga, 10-16 × 7-8 µm. Vex í allskonar landi sem hefur verið raskað, svo sem í trjágörðum og grasflötum í þéttbýli, þó einkum í vegarköntum hérlendis, kemur jafnvel upp úr götum, sem lagðar hafa verið asfalti, og á það til að lyfta upp gangstéttarhellum. Jafnan í þyrpingum, með misgömlum aldinum. Tíður um land allt. Talinn góður matsveppur ef hann er tekinn nógu ungur, meðan fanir eru enn hvítar, og minnir bragðið á kampsvepp. Gallinn er sá að það verður að matreiða hann fljótlega eftir tínslu, því annars þroskast hann og blekast. Þá er hann oftast rykugur þar sem hann vex við vegi og líklega mengaður aðskotaefnum.

Sveppabókin mun koma út hjá Skruddu í október/ nóvember 2010 og er nú
hægt að panta hana í forsölu á hagstæðu verði. Fullt verð bókarinnar
verður kr. 9.800. Þeir sem gerast áskrifendur fyrir 1. nóvember nk. fá
hana hins vegar á kr. 7.800 auk sendingarkostnaðar.

Hægt er að panta
bókina á heimasíðu forlagsins (www.skrudda.is) eða í tölvupósti
(skrudda@skrudda.is). Gæta þarf þess að gefa upp fullt nafn,
heimilisfang, síma, kennitölu og greiðslukortaupplýsingar (númer og
gildistíma). Einnig er hægt að panta hana með því að hringja í forlagið í
síma 552 8866.

Ullblekill, einnig nefndur ullserkur.

Þessi kóngssveppur fannst í Almenningunum 11. ágúst 2009.

Mynd (ullblekill): Hálfdan Ómar Hálfdanarson

Mynd (kóngssveppur) og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is