Hátíðir á Tröllaskaga


Í ágústmánuði, sem heilsar á morgun, verður sérdeilis mikið um að vera yst á Tröllaskaga. Nú um helgina verður t.d. Síldarævintýrið á Siglufirði og um næstu helgi, 8.-10. ágúst, verður Pæjumótið á sama stað, og auk þess Fiskidagurinn mikli á Dalvík, og helgina þar á eftir, 14.-16. ágúst, tónlistarhátíðin Berjadagar í Ólafsfirði.

Verði aðsókn eitthvað í líkingu við það sem verið hefur undanfarin ár er rétt að minna á, að um tvenn jarðgöng á svæðinu er að fara, Strákagöng og Múlagöng, sem hvor tveggja eru börn síns tíma og því nauðsynlegt að aka þar um með gát.

    

Vinna í Múlagöngum, sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur og mánuði, er langt komin og með þeim framkvæmdum sem þegar er lokið hefur umferðaröryggi stóraukist. Lýsing hefur verið bætt og upplýst leiðbeiningarmerki sýna hvar neyðarsíma, sem eru beint tengdir Neyðarlínu, er að finna, en þeir staðsetja fólk nákvæmlega í göngunum um leið og símtólinu er lyft. Einnig eru komin tvö 6 kg duftslökkvitæki í hvert og eitt útskotanna 19, í hverjum símaskáp.

   

Gert hefur veri hlé á verkinu vegna umferðar og tafa á afhendingu á búnaði frá byrgjum erlendis, en í raun átti að vera komið á símasamband þar inni fyrir verslunarmannahelgi, bæði fyrir GSM- og TETRA-kerfi. Það tefst hins vegar um hálfan mánuð eða svo.

   

Mikilvægt er að fólk átti sig á því að ekki komast nema 1-2 strípaðir fólksbílar fyrir í útskotum Strákaganga og 2-3 í útskotum Múlaganga, og því verður að bíða um stund fyrir utan austari gangnamunna þeirra þar til bifreið á undan er farin þar inn, til að bil á milli sé gott, en halda svo eðlilegum hraða í göngunum, sem er 50 km/klst, annars er hætta á að þau stíflist. Ein helstu mistök sem óvanir ökumenn gera þarna, er að aka þar löturhægt.

   

Einnig er brýnt að ökumenn fylgist vel með því hvort rautt ljós kvikni nærri vesturmunna Múlaganga og fari þá strax í útskot; umferð úr Ólafsfirði á nefnilega forgang.

   

Lögregla og björgunarsveitir koma til með að vera þarna með umferðarstýringu 8.-10. ágúst, einkum á sunnudeginum, þ.e.a.s. skammtað verður inn í göngin, sem ætti að gera þessi varnaðarorð óþörf, en að öðru leyti verða téðir aðilar einungis kallaðir út ef á þarf að halda.

Þessi tvö skilti við austari munna Múlaganga eru afar mikilvæg; annað sýnir hámarkshraðann sem leyfilegur er í göngunum og hitt biður ökumenn um að halda góðu bili á milli bifreiða, til að auðveldara verði að komast í útskot þegar umferð úr vestri, sem á forgang, kemur á móti. Hvort tveggja á líka við um Strákagöng.

Einn nýju síma- og slökkvitækjaskápanna sem nú eru í öllum útskotum Múlaganga.

Umferðarljósin vestantil í Múlagöngum.

Nokkurn veginn sama grein í Morgunblaðinu í dag.

Stærra letur hér.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is