Harmonikkutónleikar á morgun


Ásta Soffía Þorgeirsdóttir frá Húsavík, Kristina Bjørdal Farstad frá Tennfjord í Noregi og Marius Berglund frá Moelv í Noregi hafa öll verið að læra saman á harmóníku í Norges musikkhøgskole. Þau halda ferna tónleika á Íslandi í sumar. Lagavalið á tónleikunum er mjög fjölbreytt og stiklað er á stóru. Þau munu spila sóló, dúó og tríó verk úr öllum áttum. Meðal annars munu Marius og Kristina kynna hlið harmóníkunnar í þjóðlagatónlist Norðmanna sem birtist oft á tíðum í allskonar danstegundum. Þessi hlið harmóníkunnar er að mörgu leyti lík þeirri harmóníkumenningu sem hefur verið ríkjandi á Íslandi. Einnig verður leikin barrokk tónlist, rússnesk sígild harmóníkutónlist, nýlega skrifað skandinavískt tónverk ásamt fleiru. Með þessu munu þau miðla fjölbreyttri harmóníkutónlist og kynna margbrotnar hliðar harmóníkunnar.

Fimmtudaginn síðasta, 10. ágúst, voru þau með tónleika í Húsavíkurkirkja, 11. ágúst í Reykjahlíðarkirkju, annað kvöld, mánudaginn 14. ágúst kl. 19.00, verða þau í Siglufjarðarkirkju, og svo næstkomandi fimmtudag, 17. ágúst, í Hannesarholti í Reykjavík.

Þess má geta að Ásta Soffía á ættir að rekja til Siglufjarðar, því móðir hennar er Sigríður Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur, nú búsett á Húsavík, dóttir Soffíu Jónsdóttur (f. 1916, d. 2004) og Jóns G. Þórðarsonar (f. 1910, d. 1987).

Mynd: Aðsend.
Texti: Aðsendur / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is