Halldóra, Marlís og Ronja

Að undanförnu hafa verið að birtast frásagnir og myndir af skelfilegum afleiðingum plasts, ekki síst á dýralíf í höfunum, og mikil vitundarvakning hefur orðið í kjölfarið, jafnt hér á landi sem annars staðar. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) má ætla að eins og staðan er í dag eigi um 80% af plastinu í heimshöfunum rætur sínar að rekja til starfsemi á landi og aðeins um 20% til starfsemi á hafi úti, að því er lesa má á Vísindavefnum.

Þrjár stúlkur í 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar, Halldóra Helga Sindradóttir, Marlís Jóna Þórunn Karlsdóttir og Ronja Helgadóttir, vildu ekki láta sitt eftir liggja, eftir að hafa heyrt og lesið um þetta og þar á meðal plastflákana eða -eyjarnar fimm í Atlantshafi, Indlandshafi og Kyrrahafi, þar sem einn var fyrir tveimur árum orðinn á stærð við Texasríki í Bandaríkjunum, eða um sjöfalt stærri en Ísland, og ákváðu að sýna í verki hvað hægt væri að gera til mótvægis án mikils tilkostnaðar. Þetta var niðurstaða verkefnis sem þeim var úthlutað í náttúru- og samfélagsfræði, að koma með hugmynd um eitthvað sem tengdist umhverfisvernd en nemendur bekkjarins hafa verið að læra um þá hluti á síðustu vikum.

Eftir nokkra umþóttun tóku þær sig til og fóru að sauma haldapoka úr tauafgöngum, sem þær settu svo í matvöruverslanir sveitarfélagsins, aðra í Ólafsfirði og hina í Siglufirði. Fólki sem þar er að versla hefur síðan staðið til boða að fá pokana lánaða undir vörur, í stað þess að kaupa plastpoka, en þarf svo að skila þeim í næstu búðarferð, svo að fleiri geti haft af þeim gagn. Þetta hefur notið mikilla vinsælda, en verra er að fólk hefur ekki verið nógu duglegt við að koma með þá aftur í verslanirnar.

Þær stöllur eru hvergi nærri hættar, heldur eru farnar að safna að sér fleiri klæðabútum, og kennari þeirra, Arnheiður Jónsdóttir, hefur beðið aðra kennara um að koma með afgangsefni í skólann, t.d. gamla boli, lök og sængurver og þess háttar, og leyfa saumakonunum ungu að nýta til þessa brúks.

Nú er bara að vona að fleiri taki sér þessar norðlensku stúlkur til fyrirmyndar.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Fylgja: Úr Morgunblaðinu í dag.