Hákarl flækist í línu


Freyr Steinar Gunnlaugsson, á línubátnum Jóni á Nesi, ÓF-28, kom í gær í höfn í Siglufirði með heldur óvenjulegan afla, því hákarl hafði flækst í línunni og var enn lifandi þegar hann kom upp á yfirborðið. Að sögn Freys var þetta um 12 mílur út af Siglunesi, á 180 faðma dýpi.

Fjöldi manns safnaðist niður á bryggju til að fylgjast með þegar vanir menn, Sverrir Björnsson og dóttursonur hans, Sævar Örn Kárason, gerðu að hákarlinum og skáru hann í beitur, sem væntanlega koma til með að gleðja bragðlauka landsmanna á komandi vetri.

Í maga hákarlsins voru fiskar og selkópur og eitthvað fleira, sem erfitt var að greina.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is