Háhyrningur


Orcinus orca

Útlitslýsing. Fullvaxinn háhyrningur er 4,5–9,8 m að lengd og 2,6–9 t að þyngd og eru tarfar að jafnaði mun stærri en kýr. Efri mörkin heyra þó til undantekninga.

Háhyrningurinn er sérkennilega flekkóttur á litinn en öll skil þó mjög glögg. Að ofanverðu er hann að mestu biksvartur eða dökkgrár, allt eftir því á hvaða svæðum dýrin er að finna, en það sem framkallar hið umrædda litamynstur er að hvítur skjöldur liggur aftan við bæði augu og um kvið og nær sá litur auk þess dálítið upp á búkinn aftantil í miklum sveig. Einnig er grá- eða brúnleitur flekkur, ekki alltaf eins í lögun, aftan við hornið sem þessi tannhvalur dregur nafn sitt af.
Trjónan er ávöl og breið og án hins dæmigerða höfrunganeflags en þó markar fyrir varakanti. Bægslin eru stór og áberandi breið, spaðalaga, og bakugginn – eitt helsta greiningareinkenni tegundarinnar – hár og beinn og nánast þríhyrningslaga, einkum á gömlum karldýrum þar sem hann getur orðið allt að 2 m að hæð. Kvendýrin eru með öllu penni hyrnu, þótt mikil sé. Á þeim og ungum törfum er hún afturveigð. Sporðblaðkan, hvít að neðan en svört á jöðrum, er með greinilegu haki í miðju og oddhvöss til endanna. Blásturinn er lág súla, kúlulaga, vel greinanleg í köldu og stilltu veðri.
Í efri gómi eru 20–28 tennur og eins í þeim neðri. Þær eru keilulaga og sterkbyggðar og geta orðið um 10 cm langar. Háhyrningurinn lætur það vera að hluta bráðina í sundur og tyggja og notar þessi vopn einungis til að grípa og drepa en gleypir síðan allt í heilu lagi nema þegar um mjög stóra bráð er að ræða.

Fæða. Að þessu sögðu er rétt að taka fram að háhyrningar geta verið mjög svo ólíkir í útliti og hvað atferli, fæðuvistfræði, hópsamsetningu og erfðaeinkenni varðar. Engin félagsleg samskipti virðast á milli grúppa þeirra eða önnur blöndun, þótt leiðir skarist verulega. Er talið að aðskilnaðurinn hafi orðið fyrir óralöngu, e.t.v. fyrst landfræðilega eða við sérhæfingu í mataræði. Út af vesturströnd Bandaríkjanna er t.d. að finna miðlungsstórar hjarðir sem einungis borða fisk (og þá nær eingöngu ákveðnar laxategundir, spikfeitar) og eru tiltölulega svæðisbundnar eða heimakærar, aðrar sem flakka um í litlum hópum og nærast aðallega á spendýrum og fuglum, og enn aðrar sem eru djúpt úti og fara um í stórum vöðum; ekki er nákvæmlega vitað um fæðuvenjur þeirra en uppistaðan talin vera hákarlar, lúður og aðrir stórfiskar.

Svipað er upp á teningnum á suðurhveli jarðar. Þar eru reyndar tvær af þremur gerðum svo frábrugðnar öðrum háhyrningum að líklegt er talið að þær verði í náinni framtíð greindar sem a.m.k. undirtegundir eða þaðan af meira. Önnur þeirra er með geysistóran augnblett, dvelur mest við ísröndina (algeng í kringum Suðurskautsskagann) og étur einkum seli; hin er dvergafbrigði, með örmjóan, skávísandi augnblett, heldur sig við austanvert Suðurskautslandið og lifir á fiskmeti. Báðar er með gulbrúnni slikju yfir og um, að talið er vegna þörunga. Rússneskir vísindamenn hafa gefið þessum háhyrningum fræðiheitin Orcinus nanus ogOrcinus glacialis. Sú þriðja er nokkuð dæmigerð í útliti, hefur miðlungsstóran, láréttan augnblett, er að finna umhverfis Suðurskautslandið en heldur sig djúpt úti, á íslausum svæðum, og lifir aðallega á ísreyði (Balaenoptera bonaerensis) og dvergafbrigði hrefnu.
Ekki er ljóst hvernig þessu er háttað annars staðar á jarðarkringlunni en í Norður-Atlantshafi étur háhyrningurinn aðallega síld, loðnu og höfuðfætlinga en leggur sér þó einnig til munns sjávarspendýr og þvíumlíkt. Í öðrum höfum bætast mörgæsir í þennan hóp, þar sem finnast, og ýmsir stórfiskar, eins og hákarlar og skötur, og meira að segja er vottfest að leifar af ísbirni hafi eitt sinn fundist í háhyrningsmaga. Eru skráðar heimildir fyrir a.m.k. 25 tegundum hvala á matseðlinum, fimm tegundum hreifadýra, 30 tegundum fiska, sjö tegundum fugla og tveimur gerðum smokkfiska, auk margra annarra dýra, þar á meðal elga og hreindýra sem tekin voru á sundi.
Lífssaga. Engin spendýrategund, að manninum undanskildum og e.t.v. brúnrottunni, hefur meiri útbreiðslu en háhyrningurinn. Hann er í flestum sjóum jarðarinnar, bæði á grunnslóð og úti á opnu hafi, allt að ísjaðri heimskautanna beggja vegna. Best kann hann við sig ofarlega, í vatnsskorpunni, en getur einnig kafað djúpt, a.m.k. niður á 260 m, ef honum býður svo við að horfa. Einn fannst meira að segja á 1.000 m dýpi, flæktur í neðansjávarkapli. Dæmigert sundmynstur er þannig að hann andar á 10–35 sekúndna fresti, eftir á.a.g. 12 smáköf, en fer síðan í lengri dýfu sem getur varað allt að 17 mínútum.
Háhyrningur er mjög félagslyndur eins og reyndar algengt er meðal höfrunga og fer oft um í 3–25 dýra hópi eða þaðan af stærri. Að jafnaði er synt á 5–15 km/klst í langferðum en hann getur þó náð meira en 60 km hraða ef svo ber undir. Hann stekkur mikið og er iðulega „á njósn” (kagar).
Mökun og burður eru á öllum tímum árs, oft þó á haustin og fram á vor. Meðgangan tekur 15–18 mánuði og er kálfurinn um 2,5 m við fæðingu og vegur um 180 kg. Hann er á spena í 1–2 ár og verður kynþroska 8–17 ára gamall (kýr 8–10 ára, tarfar 15–17 ára). Kýr bera svo á 2–14 ára fresti.
Háhyrningar eiga ýmis hljóð í fórum sínum, til að rata um hafsins vegu og leita uppi bráð sem og  til innbyrðis nota. Hver og ein grúppa hefur t.d. sína eigin mállýsku.
Erfitt er að greina reglubundnar farleiðir háhyrninga en vitað að einhverjir hreyfa sig eftir árstíðum.
Ógn. Sjómönnum hefur löngum verið í nöp við háhyrninginn, einkum vegna gruns um að hann sækti í veiðarfæri þeirra og eyðilegði og hafa þeir oftar en ekki reynt að grípa til einhverra ráðstafana vegna þess. Slíkt gerðist t.d. haustið 1953, þegar háhyrningar voru einhverju sinni mjög ágengir við síldarnet út af Reykjanesi. Beiðni um aðstoð var send til hersins á Keflavíkurflugvelli sem brá hart við og sendi flugvélar á vettvang er síðan notuðu vélbyssur og djúpsprengjur á vöðurnar. Er talið að þar hafi fallið mörg hundruð dýr.
Í Kanada áttu fiskimenn í svipuðum vanda og afréð stjórn landsins að kosta tilraunir með vígatrjónur framan á skip, eins og á forngrískum þríræðingum, til að stíma á hvalina.
Sumar þjóðir hafa í gegnum tíðina nýtt háhyrninginn sér til matar þótt yfirleitt hafi ekki verið um að ræða skipulagðar veiðar eins og á stórhvölunum t.d. Bandarískir hvalveiðimenn á 18. og 19. öld áttu það til að hirða þessi dýr ef aðstæður buðu upp á það og bráðin sem þeir í raun voru komnir til að finna sást ekki. Þetta var samt aldrei í neinum teljandi mæli. En Norðmenn tóku hins vegar um 2.400 háhyrninga á austanverðu Norður-Atlantshafinu og um 50 að auki við suðurodda Grænlands á árunum 1938–1981; og Japanir veiddu um 1.200 dýr á hafsvæðinu við strendur lands síns á árunum 1953–1977; og Sovétmenn 270 dýr á Norðvestur-Kyrrahafi á árunum 1953–1964.
Á suðurhveli jarðar létu menn háhyrninginn lengi vel í friði eða allt til ársins 1953 að Sovétmenn hófu þar veiðar og tóku um 1.700 dýr frá því ári til 1980.
Á síðari árum hefur komið upp mikill áhugi á að fá háhyrninga í sædýrasöfn víða um heim. Á árunum 1962–1973 voru 67 háhyrningar teknir lifandi við strendur Ameríku, Kyrrahafsmegin, þ.e.a.s. á hafsvæðinu við bresku Kólumbíu og Washingtonfylki, í þessum tilgangi. Og á Íslandi ruddi Jón Kr. Gunnarsson, þáverandi forstjóri Sædýrasafnsins í Hafnarfirði, þessari starfsemi braut um haustið 1975 þegar hann með veiðiskipinu Guðrúnu GK 27 lagði fyrstur Íslendinga upp í slíkan leiðangur og miklu oftar svo eftir það. Frá árinu 1975–1988 náðust á þennan hátt 84 háhyrningar. Hafa íslensk dýr verið send víða, einkum til Evrópulanda, en þó einnig Bandaríkjanna, Argentínu, Brasilíu, Mexíkó, Japans og Hong Kong.
Talið er að háhyrningstarfar geti orðið 50–60 ára gamlir og kýrnar 80–90 ára.

Stofnstærð og horfur. Alheimsstofnstærð er ekki kunn en ekki þykir ósennilegt að hún geti verið 50.000 dýr og e.t.v. þó nær 100.000 og þar af í Norður-Atlantshafi 6.000–7.000.

Líkar tegundir. Oftast er háhyrningurinn auðgreindur en sé fjarlægð mikil eða aðstæður ekki upp á það besta mætti ruglast á kvendýrum og ungum törfum og hnýðingi og jafnvel ýmsum öðrum höfrungategundum með reisulegan bakugga, s.s. þvergráma og háhyrningsbróður.

Vísindaheitið og merking þess. Orcinus er ýmist talið komið af latneska orðinu orcus (= helheimar; víti) eða orchynus (= túnfiskur); orca er ýmist talið komið af latneska orðinu orcus (= helheimar; víti) eða orca (= einhver hvalur): Djöfullinn úr neðra eða Hvalurinn sem eltist við túnfisk eða Hvalurinn sem minnir á túnfisk(að líkamslögun).

Fróðleiksmoli. Frægastur allra háhyrninga er sennilegast Keikó. Nafnið er japanskt og merkir „Sá heppni”. Hann náðist við Ísland árið 1979, þriggja ára gamall, var seldur til Marineland í Ontario árið 1982, og þaðan yfir í sædýrasafnið Reino Aventura í Mexíkóborg árið 1985, og öðlaðist heimsfrægð þegar hann „lék” í kvikmyndum um Willy (1993, 1995 og 1997).

Árið 1993 fór af stað herferð til að frelsa hann. Var hann fluttur í sjóbúr í Oregon þar sem hann fór í endurhæfingu og 9. september árið 1998 var hann sendur með herflugvél til Vestmannaeyja og búið tímabundið heimili í sjókví í Klettsvík til að undirbúa hann undir frelsið. Í júlímánuði 2002 var honum sleppt. Í september það ár birtist hann við Noregsstrendur, nánar tiltekið út af Halsa. Hann gaf upp andann 13. desember 2003 í Taknesbugt, eftir að hafa fengið bráða lungnabólgu. Hann er grafinn í jörðu þar í landi. Hann varð 27 ára gamall.
Í HNOTSKURN

Lengd við fæðingu: 2,1–2,6 m.
Þyngd við fæðingu: 160–200 kg.
Lengd (fullvaxnar kýr): 4,5–8,5 m.
Lengd (fullvaxnir tarfar): 7–9,8 m.
Þyngd (fullvaxnar kýr): 2,6–7,5 t.
Þyngd (fullvaxnir tarfar): 3,8–9 t.
Lífslíkur: Tarfar 50–60 ár, kýr 80–90 ár.

Alheimsstofnstærð: Ekki vitað, en a.m.k. 50.000 dýr og e.t.v. nær 100.000.

Í Norður Atlantshafi: E.t.v. 6.000–7.000 dýr.

GREININGAREINKENNI

Bolur: Töluverður stærðarmunur á kynjum. Sérkennilega flekkóttur búkur en öll skil þó mjög glögg; að mestu dökkur að ofanverðu, grá- eða brúnleitur flekkur þó aftan við hornið og niður á síðu. Hvítur eða okkurgulur skjöldur (líklega af völdum þörunga) aftan við bæði augu.
Hyrna: Mjög há og bein, einkum á gömlum karldýrum (getur orðið allt að 2 m). Lægri og aftursveigð á kúm og ungum törfum.

Bægsli: Mikil og spaðalaga.

Sporðblaðka: Breið, með haki í miðju. Svört að ofan, hvít undir (með svörtum jöðrum). Getur verið smáskörðótt. Oddhvöss til endanna.
Köfun: Yfirleitt 4 mínútur eða svo í einu; 5–15 mínútur þó hjá flökkuhópum, þeim sem eltast fremur við seli og önnur sjávarspendýr heldur en fiska.
Blástur: Lág súla, kúlulaga; vel greinanleg í köldu og stilltu veðri.
Sundatferli: Syndir að jafnaði á 10–15 km/klst; getur þó náð meira en 60 km hraða ef svo ber undir.
Kjörsævi: Grunnsjávar- og úthafshvalur; fer mjög víða um. Kjördýpi 100–1.000 m.
Fas: Stekkur gjarnan og leikur sér í yfirborðinu; vel þekktur „njósnari”.
Hópstærð: 1,2–40(200+). Hópsamsetning misjöfn eftir gerðum.

Myndir og kort: Jón Baldur Hlíðberg | jbh@fauna.is
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is