Haftyrðlar í vanda


Í norðangarranum undanfarið hefur eitthvað af haftyrðlum borist undan vindi og upp á land í Siglufirði og vafalaust annars staðar hér í kring. Hefur fólk verið að rekast á þá í görðum og víðar nærri húsum. Eina leiðin til að bjarga þeim er að koma þeim á sjóinn aftur eins fljótt og auðið er. Besti staðurinn er smábátahöfnin, enda hægt að finna þar logn einhvers staðar í flestum áttum.

Haftyrðill er minnsti svartfugl í Norður-Atlantshafi og verpti áður fyrr á Íslandi, m.a. í Grímsey. Sumir telja að enn megi rekast á fugla á Hornströndum að vorlagi, en fræðimenn eru því ósammála.

Haftyrðlar koma stundum hingað í töluverðum mæli norðan úr höfum á veturna. Þeir eru algengastir fyrir norðan og austan en sjást þó einnig vestanlands og sunnan. Óvíst er hvaðan þeir koma nákvæmlega en þó hefur einn fugl, merktur á Svalbarða, náðst við Ísland. Algengt er að þeir hrekist í milljónatali í vetrarstórviðrum um hafið og margir farist, enda fisléttir og því viðkvæmir.

Í ferðabók Þorvaldar Thoroddsen er sagt frá því, að um veturinn 1880-1881 hafi stórhópar af haftyrðlum flækst upp um sveitir og fjöll á Norður- og Norðausturlandi og legið þar helfreðnir í sköflunum. Um jólaleytið 1938 munu haftyrðlar á líkan máta hafa flykkst í þúsundatali að Norðurlandinu. Voru þeir m.a. í stórum breiðum á Eyjafirði og Skjálfandaflóa og hröktust inn eftir Reykjadal og Bárðardal. Um vorið fundust dauðir haftyrðlar fram við Dyngjufjöll og Öskju, sem er allt að 130 km frá ströndinni.

Haftyrðillinn er mikilvægur Eskimóum; þeir bæði nýta hann sér til matar og vinna úr hamnum ákveðna flík sem nefnist á grænlensku tingmiaq. Í hana þarf 50 hami og dugar hún árið. Fuglinn á sér marga aðra óvini á norðurslóðum og þar eru ofarlega á blaði hvítmáfur og refur. Auk þeirra má nefna fálka og hrafn og meira að segja haförn á vetrum. Og af lagardýrum eru það ýmsar fisktegundir, selir og hvalir.

Önnur heiti fuglsins eru dyrðill, hafdirðill, hafdurtur, hafdyrðill, haftirðill, haftrítill, halkíon (einnig ritað halcion, halfkíón, halkion og halkíón), helkíon, sækóngur og teista.

Ekki er ólíklegt, með framansagt í huga, að Þeistareykir (þeista og þeisti = teista) séu einmitt nefndir eftir haftyrðlum sem einhverju sinni forðum hafa lent þar í villum.

Meðfylgjandi ljósmynd var annars tekin á prestsetrinu Hvanneyri 14. janúar 2013. Þeim fugli var sleppt í bátadokkinni.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]