Haförn á sveimi í firðinum


Haförn sást á flugi yfir Hafnartúninu fyrir um tveimur klukkustundum. Hann settist
eitt andartak á ljósastaur þar en hvarf svo á braut, að sögn Antons Páls
Eyþórssonar, sem sá hann líka í fyrradag út með ströndinni vestanverðri.
Fólk er beðið um að hafa augun opin og láta undirritaðan vita ef til
þessa mikilfenglega fugls sést.

Hafernir eiga það til að líta hingað á Norðurlandið þessi síðustu árin. Einn sást t.d. í Flatatungu í Skagafirði og víðar 13. apríl 2010. Og fréttir bárust af öðrum í Héðinsfirði 20. og 23. október 2010 og í Ólafsfirði einhverju síðar. Og annar var í lok maí 2012 í Eyjafirði innarlega og hafði þá sést daglega í a.m.k. eina viku. Og enn annar var þar 4. maí 2013 og einn til 10. apríl 2014.

Haförninn er eini fulltrúi sjóarna í Evrópu og er næststærstur íslenskra fugla. Hann er 70-90 cm að lengd, tæp 5.000 g að þyngd að meðaltali (kvenfuglar 4.080-6.920 g, karlfuglar 3.075-5.430 g; kvenfuglar eru m.ö.o. að jafnaði um 15% lengri og 25% þyngri en karlfuglar) og með 200-240 cm vænghaf.

Útbreiðslusvæði hafarnarins náði upphaflega um alla Evrópu og austur um Asíu. Og af gömlum heimildum og fornleifum hefur verið ráðið að örninn hafi einnig forðum verið í löndum fyrir botni Miðjarðarhafs, í Egyptalandi og Norður-Afríku. Í dag eru þeir flestir við Noregsstrendur, í Austur-Þýskalandi og í Svíþjóð (við Eystrasalt). Þá er lítill stofn á Suðvestur-Grænlandi, í hólmum og eyrum við Dóná í Ungverjalandi og Júgóslavíu, og suður um Balkanskaga til Grikklands. Síðan nær útbreiðslusvæðið um Rússland, Litlu-Asíu, Írak og Íran og austur um Mið-Asíu og Síberíu, allt til Kína. Deilitegundir eru engar.

Fyrr á öldum var haförninn útbreiddur um land allt hér, ekki einungis við sjávarsíðuna eins og nú heldur einnig við fiskivötn og ár, eins og t.d. Þingvallavatn, Mývatn og Veiðivötn. Aðalheimkynni hans voru þó alltaf á vestanverðu landinu, við Faxaflóa, Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Giskað hefur verið á að þegar best lét hafi stofninn þó ekki talið nema 200-300 pör. Á seinni hluta 19. aldar var hafin útrýmingarherferð gegn tegundinni. Byggði hún m.a. á þeirri náttúrufræðilegu kenningu að allt fuglalíf myndi dafna betur ef ránfuglum væri útrýmt. Frá 1880 til ársins 1920 fækkaði verpandi arnarpörum úr 100 niður í tíu. Var erninum þar með útrýmt af öllu Austurlandi, Suðurlandi og Norðurlandi.

Árið 1913 voru sett lög um algera friðun hafarnarins en þóttu misjafnlega haldin í fyrstu. Þó virðast þau hafa komið í veg fyrir aldauða tegundarinnar á Íslandi.

   

Útburður eiturs (strikníns) í hræ, sem einkum var hugsað til að fækka refum, varð næsta áfall þessarar fuglategundar. Og í 50 ár var arnarstofninn á barmi glötunar má segja; oft náðu aðeins 4-5 hjón að koma upp ungum. En eftir að Fuglaverndunarfélag Íslands var stofnað, árið 1963, og bann lagt við útburði eiturs, árið 1964, hefur allt verið bjartara í þessum málum, enda vísindalega að þeim staðið. Og nú er svo komið að arnarstofninn telst vera á uppleið, þótt hægt fari, með um 70 varppör, eða í allt um 200 fugla, og ernir jafnvel farnir að leita út fyrir Vestfirði og Breiðafjörð og hefja landnám í öðrum landshlutum.

Víða erlendis fór ver en hjá okkur. Í Færeyjum var haferninum eytt fyrir aldamótin 1700, í Frakklandi árið 1890. Um sömu mundir var honum útrýmt úr Rínardal og af Hollandi og árið 1916 af Bretlandseyjum.

Haförn á flugi yfir Barðaströnd í sumar.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is