Hafliði Guðmundsson hreppstjóri

Í dag eru 100 ár síðan Hafliði Guðmundsson hreppstjóri andaðist, eftir langa og þunga sjúkdómslegu. Hann var allt í öllu hér í lok 19. aldar og á fyrstu árum 20. aldar og drengur góður. Um það ber öllum saman.

Í blaðinu Norðurlandi 19. maí 1917 segir um hann:

„Hann var fæddur í Reykjavík 2. desember 1852 og var faðir hans, Guðmundur Guðmundsson, ættaður af Vatnsleysuströnd, náfrændi Bjarna rektors. Hafliði ólst fyrst upp í Reykjavík, en 14 ára gamall fluttist hann að Hvítárvöllum til bændaskörungsins Andrésar Féldsted og var hjá honum um hríð. Lærði hann þar ýmislegt er að smíði laut, niðursuðu o.fl. en fór svo til Reykjavíkur aftur og var þar unz hann fluttist til Siglufjarðar árið 1877 […]. Stundaði hann fyrst niðursuðugerð þar og rak þá atvinnu um 20 ára skeið, en lagði hana á hilluna er önnur störf hlóðust á hann.

Ekki verður saga Siglufjarðar sögð né samin, svo að Hafliða verði þar ekki getið, bæði að mörgu og góðu. Hann kom þangað þegar kauptúnið var í bernzku og allar þær framfarir sem þar hafa orðið síðan, hefir hann stutt meira eða minna. Hann var í hreppsnefndinni um 30 ár og hreppstjóri var hann frá 1896 til dauðadags. Var það oft mikið starf og afar-örðugt, því hreppsstjórinn á Siglufirði var um mörg ár lögreglustjóri þar og þurfti oft að skerast í vandasöm mál, er útlendir sjómenn óðu þar uppi með ofstopa og vildu engu eira. Kom þá oft, ekki sízt í ljós, hve mikið var í Hafliða spunnið og hve góðum hæfileikum hann var gæddur. Lipurð hans og lægni, samfara festu í lund, var við brugðið enda getur tæplega vinsælli mann en Hafliði var af öllum er kyntust honum.

Hann var áhugamaður um þjóðmál og lét sig þau miklu skifta. Var hann eindreginn Heimastjórnarmaður frá upphafi þess flokks og fylgdust hinir eldri skörungar Siglfirðinga (séra Bjarni, Helgi læknir o.fl.) þar allir trúlega að málum, enda gætir glögt áhrifa þeirra.

Hafliði kvæntist 9. apríl 1880, Sigríði Pálsdóttur Magnússonar útgerðarmanns í Reykjavík, hinni mestu sæmdar- og atorkukonu. Var heimili þeirra ávalt orðlagt fyrir gestrisni og höfðingshátt í hvívetna og eiga hinir mörgu er þar hafa komið fyr og síðar, margs góðs að minnast þaðan. Voru þau hjón mjög samhent í að gera garðinn frægan og vinsælan og höfðu hvort um sig sína kosti til þess. Börn eignuðust þau fimm, sem öll eru nú fulltíða og búsett á Siglufirði: Helgi kaupmaður og útgerðarmaður, Guðmundur afgreiðslumaður, Andrés verzlunarmaður, Kristín kona Halldórs kaupmanns Jónassonar og Ólöf kona Sophusar verzlunarstjóra Blöndal.

Við fráfall Hafliða er mikið skarð orðið fyrir Siglfirðinga og alla er kyntust honum eitthvað og mun hans víða saknað.“

Minnisvarði um hann, sem Norðmenn reistu, stendur við Þjóðlagasetrið, öðru nafni Hafliðahús, þar áður Maðdömuhús.

Forsíðumynd: Ljósmyndasafn Siglufjarðar.
Aðrar myndir: Sigurður Ægisson | [email protected]
.
Texti: Sigurður Ægisson | [email protected] Ekki er vitað um höfund þess sem ritaði í Norðurland.