Hafbor ehf. í Panama


Síðastliðið sumar gerði Hafbor ehf. á Siglufirði, í samstarfi við Króla ehf. í Garðabæ, samning við SF Marina A/B í Svíþjóð um að setja niður festingar fyrir nýjar flotbryggjur í Linton Bay sem er við Karíbahafsströnd Panama. Króli ehf. er umboðsmaður SF Marina hér á landi, hefur undanfarna áratugi sett upp flotbryggjur víðsvegar á Íslandi og fyrir tveimur árum hófst samstarf Hafbors ehf. og Króla varðandi markaðssetningu á festingatækni Hafbors fyrir flotbryggjur. Tæknin felst í því að setja niður allt að fjögurra metra löng skrúfuakkeri með fjarstýrðri borvél sem þróuð var til að festa niður línur í skelfiskrækt og fiskeldiskvíar. Þessi tækni hentar einnig víða til að festa flotbryggjur og hefur verið notuð með góðum árangri, m.a. á Siglufirði, Sauðárkróki og á Hofsósi þar sem mikið álag er á fljótandi mannvirki.

Miklar rigningar gerðu mönnum stundum erfitt fyrir

Sem lið í markaðssetningarátaki Hafbors og Króla var, með styrk frá Vaxtarsamningi Eyjafjarðar, forsvarsmönnum SF Marina boðið til Íslands að fylgjast með vinnu við flotbryggjur á Sauðárkróki og í framhaldinu ákvað SF Marina að bjóða bortækni Hafbors sem hluta af vörulínu sinni.

„Tveir starfsmenn Hafbors fóru til Panama í lok október og unnu við uppsetningu á bryggjum og settu niður festingar með starfsmönnum SF Marina frá Svíþjóð og lauk verkinu rúmlega fjórum vikum síðar. Mestur tími fór í samsetningu á bryggjum og var unnið samhliða við festingar og bryggjur. Að jafnaði voru um tíu manns við vinnu á staðnum, tveir frá SF Marina í Svíþjóð sem sáu um verkstjórn, tveir frá SF Marina Caribbean, 4-5 heimamenn auk starfsmanna Hafbors. Verkið var unnið í lok regntímabilsins við Karíbahafsströndina og gerðu miklar rigningar mönnum stundum erfitt fyrir en við vorum samt heppnir með veður miðað við árstíma,“ segir Ingvar Erlingsson, framkvæmdastjóri Hafbors.

Samstarfsverkefni nokkurra fjárfesta í Panama

Linton Bay Marina er samstarfsverkefni nokkurra fjárfesta í Panama sem vilja glæða ferðamannaiðnaðinn í norður Panama og bjóða upp á hágæða aðstöðu fyrir ferðamenn sem sigla um svæðið á snekkjum og skútum. Flotbryggjurnar voru fyrsti áfangi verksins en í framhaldinu verður m.a. byggt hótel, veitingastaðir og viðhaldsþjónusta fyrir báta. Þessi nýja höfn er markaðssett sem öruggasta höfn á Karíbahafsströnd Panama og því mikill heiður að Hafbor varð fyrir valinu þegar kom að festingum fyrir flotbryggjurnar.

Aðstæður á verkstað í Panama voru mjög frumstæðar og var því um krefjandi verkefni að ræða á margan hátt. „Mestallur búnaður og bryggjur, samtals um 2.200 tonn, var flutt með sérhæfðu flutningaskipi frá Svíþjóð til Panama og þar sem engin hafnaraðstaða er á svæðinu þurfti að sjósetja bryggjur við skipshlið og draga svo búnað og bryggjur síðasta spölinn með smábátum sem heimamenn nota vanalega til flutnings á ferðamönnum. Til þess að setja niður festingar var smíðaður sérstakur prammi fyrir borvélina og þann búnað sem henni fylgir,“ segir Ingvar.

Hafa staðið af sér fárviðrin í Bandaríkjunum

Hafbor hefur undanfarin tvö ár unnið að markaðssetningu tæknilausna sinna í Bandaríkjunum og hefur nú þegar sett niður festingar fyrir skelfiskrækt á tveimur stöðum á austurströndinni, nánar tiltekið við Rhode Island, og fleiri verkefni eru á teikniborðinu þar um slóðir. Nú síðast voru settar festingar fyrir tilraunarækt á kræklingi fyrir opnu hafi fyrir utan Newtown RI í september og hafa síðan þá tvisvar gengið fárviðri yfir svæðið og festingarnar hafa staðið af sér veðrin sem lofar góðu fyrir framhaldið.

Stefnt er að frekara samstarfi Hafbors, Króla og SF Marina á næstu árum og er undirbúningur m.a. hafinn að verkefnum í Evrópu. Samhliða verða einnig unnin verkefni á vegum Hafbors við fiskeldi og skelfiskrækt í Bandaríkjunum.

Skrúfuakkeri Hafbors hífð frá borði flutningaskipsins eftir tveggja mánaða ferðalag frá Siglufirði með viðkomu í Svíþjóð.

Skrúfuakkerin flutt síðasta spölinn á flotbryggjum frá skipshlið.

Fjarstýrð neðansjávarborvél Hafbors samsett á verkstað í Linton Bay; vélin er íslensk hönnun og smíði frá grunni.

Fyrsta áfanga Linton Bay Marina fyrir 90 báta og snekkjur lokið.

Úr Morgunblaði dagsins.

 

Myndir: Ingvar Erlingsson.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is