Gúrkutíð á miðjum vetri


„Sóknarpresturinn á Siglufirði, Sigurður Ægisson, hefur undanfarin ár fengið árlegan styrk frá Fjallabyggð vegna heimasíðu sem hann heldur úti. Bæjarráð Fjallabyggðar samþykkti fyrir sitt leyti að styrkja Sigurð á árinu 2015 vegna heimasíðunnar Siglfirðingur.net. Bæjarstjórn á eftir að samþykkja styrkveitinguna. Að sögn Steinunnar Maríu Sveinsdóttur, formanns bæjarráðs, er styrkurinn veittur vegna mikilvægis síðunnar fyrir bæjarfélagið. Hún sé bæði upplýsingasíða og sagnfræðileg heimild um byggðarlagið.“ Þannig hljóðaði klausa á Vísi.is í dag og önnur samhljóða mun víst hafa prýtt Fréttablaðið.

Eigandi Siglfirðings.is, sem er með blaðamannaskírteini nr. 626, hefur nokkurn kostnað af rekstri vefsins, það er ekkert launungamál, en starfið er hins vegar sjálfboðavinna.

Blaðamannaskírteini nr. 626.

Hefur sá aumi klerkur en stolta dreifbýlistútta leyft sér að rita í athugasemdadálk umræddrar frétta- og afþreyingarsíðu í hinum merka höfuðstað þetta:

„Ég þakka auglýsinguna en langar að fá að koma að tveimur athugasemdum: a) Umræddur vefur heitir Siglfirðingur.is, ekki Siglfirðingur.net, og b) er ekki heimasíða, heldur, eins og segir þar „óháður frétta-, upplýsinga- og mannlífsvefur tileinkaður lífinu í Siglufirði, fyrr og nú, einkum því sem er jákvætt, uppbyggjandi og gefandi, og er hafinn yfir pólitíska flokkadrætti og argaþras.“ Þetta hefði „blaðamaður“ auðveldlega séð ef hann hefði nennt að rannsaka málið ofan í kjölinn. Reyndar hafa upplýsingar um styrktaraðila legið fyrir allt frá upphafi, 3. júlí 2010, á sjálfri forsíðunni. Og eru þar enn. Og verða.“

Siglfirðingur.is er skráður fjölmiðill eins og hér má sjá.

Það er alltaf ánægjulegt þegar landsbyggðin nær augum þessa fjölmiðlarisa, 365, svo örsjaldan sem það nú annars gerist. Og ber að þakka.

Svo mætti kannski rifja upp það sem hér var skrifað þegar Siglfirðingur.is varð fjögurra ára. Þar sagði:

Fyrsta árið heimsóttu einstaklingar frá 69 þjóðlöndum sex heimsálfa – Evrópu, Afríku, Norður-Ameríku, Suður-Ameríku, Asíu og Eyjaálfu – vefsvæðið. Núna er sú tala komin í 100. Flestir notenda eru í löndum Evrópu (143.440), næstflestir í Norður-Ameríku (8.421), í þriðja sæti er Asía (465), í því fjórða Suður-Ameríka (232), í því fimmta Eyjaálfa (116) og í því sjötta Afríka (67). Ekki hefur verið unnt að staðsetja 36. Af þessum notendum öllum búa 132.530 hér á landi, næstflestir í Bandaríkjunum eða 7.606 og þriðji stærsti hópurinn er í Noregi eða 2.764. Fréttir og tilkynningar sem birst hafa eru orðnar 3.130 að tölu, greinar 38, fróðleikskorn 17, viðtöl 15 og myndir 14.754. Vikulegir notendur voru flestir 23.734.

Þessar upplýsingar eru allar komnar frá vefmælingarfyrirtækinu Modernusi.

Og upphæð væntanlegs styrks? 50.000 krónur.

Forsíðumynd: Skjáskot af téðri frétt.
Önnur mynd: Skannaður blaðamannapassi nr. 626.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

 

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is