Guðmundur og skothelda rúðan


Fimmta bindið af Skagfirskum skemmtisögum er komið út hjá Bókaútgáfunni Hólum. Sem fyrr er það Skagfirðingurinn og blaðamaðurinn Björn Jóhann Björnsson sem tekur sögurnar saman. Þær eru orðnar vel á annað þúsund í bindunum fimm og hafa að geyma óborganlegar sögur af Skagfirðingum til sjós og lands, allt frá ofanverðum miðöldum til dagsins í dag. Hafa bækurnar hlotið fádæma viðtökur um allt land, ekki bara í Skagafirði, og verið ofarlega á metsölulistum bókaverslana. Að þessu sinni eru um 200 sögur héðan og þaðan úr Skagafirði, allt frá Siglufirði í norðri, sem jú tilheyrði Skagafirði um tíma, til Akrahrepps í suðri. Króksarar fyrr og nú koma mikið við sögu, sem og Hofsósingar og nærsveitamenn. Sagt er frá ævintýralegum hestaviðskiptum við Stebba á Keldulandi og birt smásagan Raunir á Reyðarskeri.

Ein sagan er á þessa leið:

Guðmundur góði var maður einn á Siglufirði svonefndur, en margir Skagfirðingar af eldri kynslóðinni muna vel eftir honum er hann fór á milli bæja og seldi bændum ýmis verkfæri. Hann kom oft við hjá Þorvaldi á Sleitustöðum. Í þetta sinn var hann á nýjum Citroën og vildi endilega sýna Þorvaldi gripinn, á leið sinni suður á bóginn.
„Svo er eitt gott við bílinn,“ sagði Guðmundur er hann dásamaði ökutækið, „það er skotheld í honum framrúðan.“
Bifvélavirkinn Þorvaldur hafði nú aldrei heyrt um slíka rúðu í venjulegum fólksbíl og fannst þetta merkilegt.
„Já, þeir segja þetta í umboðinu, að rúðan sé skotheld.“
Síðan kvöddust þeir félagar og Guðmundur hélt áfram suður. Í Borgarfirði gerðist það að steinn kom í framrúðuna á nýja Citrónum og rúðan brotnaði í kurl. Á leiðinni aftur til Siglufjarðar kom Guðmundur við hjá vini sínum á Sleitustöðum. Þorvaldur spurði þá hvernig ferðin hefði gengið.
„Jú, það gekk vel, nema að framrúðan fór, við fengum grjót í rúðuna og hún bara fór,“ sagði Guðmundur.
„Nú hver andskotinn,“ sagði Þorvaldur, „átti hún ekki að vera skotheld?“
„Þeir lugu að mér helvítin, en ég er búinn að sjá við þeim. Þegar ég mæti bíl þá keyri ég bara beint á móti honum þangað til hann verður að víkja. Þá vík ég en þá er hann líka stoppaður,“ sagði Guðmundur og eftir þetta brotnaði aldrei hjá honum bílrúða!

Bókin fæst í öllum helstu bókaverslunum landsins.

skagfirskar_skemmtisogur_5b

Mynd: Aðsend.
Texti: Aðsendur / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is