Grjótkrabbi finnst í Siglufirði

Þrír ungir veiðigarpar – Mikael Sigurðsson, 12 ára, og Júlíus og Tryggvi Þorvaldssynir, 13 ára – náðu grjótkrabba í gildru 18. júlí síðastliðinn við Óskarsbryggju í Siglufirði, rétt innan við Öldubrjót. Þetta væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að grjótkrabba varð fyrst vart við Íslandsstrendur árið 2006 en þá fannst hann í Hvalfirði.

Að sögn Jónasar P. Jónassonar sérfræðings á Hafrannsóknastofnun hefur tegundin dreifst nokkuð hratt út síðan hún fannst hér við land fyrst. Árið 2007 hefjast rannsóknir á grjótkrabbanum við Háskóla Íslands og veiðast lirfur í Hvalfirði það sama ár. Hann finnst nærri Stykkishólmi árið 2008 sem og lirfur í Patreksfirði. Árið 2009 finnast tómar skeljar á Barðaströnd. Grjótkrabbi fannst svo í Arnarfirði árið 2011. Árið 2013 mun Erlendur Guðmundsson kafari hafa séð grjótkrabba í höfninni við Slippinn á Akureyri, en hann náði hvorki að handsama né mynda þann krabba, svo ekki reyndist unnt að staðfesta fundinn. En fundur hans í Eyjafirði var svo staðfestur árið 2015 þegar Erlendur Bogason kafari fann einn og náði af honum kvikmynd. Enn hefur ekkert eintak verið staðfest úr Skjálfanda. Á Ísafirði náðist einn í krabbagildru árið 2014.

Á Vísindavefnum kemur fram að þetta sé norður-amerísk krabbategund með náttúrulega útbreiðslu frá Suður-Karólínu norður til Labrador og að áður hafi útbreiðsla krabbans aðeins verið þekkt við austurströnd Norður-Ameríku og sé Ísland því nyrsti og jafnframt eini þekkti fundarstaður hans í Evrópu til þessa. Talið er líklegast að tegundin hafi borist hingað til lands á lirfustigi í kjölfestuvatni skipa.

Siglfirska grjótkrabbanum, hinum fyrsta sem næst hér í firði, var sleppt lifandi í höfnina að lokinni skoðun og er þar eflaust enn í góðu yfirlæti.

Sjá nánar hér.

Myndir af grjótkrabbanum: Tryggvi Þorvaldsson.
Texti og mynd af veiðigörpunum: Sigurður Ægisson | [email protected]