Grindur á leið upp í fjall


Þessa dagana er verið að hefja áframhaldandi uppsetningu snjóflóðavarnarstoðvirkja í Hafnarfjalli ofan við Siglufjarðarkaupstað, en verkið hófst árið 2013. Verktaki er ÍAV hf. Um er að ræða grindur samskonar og eru í Gróuskarðshnjúki, ofan við bæinn norðanverðan og sem settar voru upp haustið 2003, en umfang þessa verks er um það bil þrisvar sinnum meira.

Að sögn Gunnars I. Birgissonar, bæjarstjóra Fjallabyggðar, voru óvenju mikil snjóalög þar uppi í vor og því ekki hægt að byrja fyrr, eins og ráðgert hafði þó verið. Nemur seinkunin 2-4 vikum. Notuðu menn því tímann og settu grindurnar saman á og við sunnanverðan flugvöllinn og hafa þær beðið þar tilbúnar síðan.

Nú er verið að bora fyrir festingum ofan í bergið uppi í Hafnarfjalli og fljótlega verða grindurnar fluttar þangað upp á þyrlum og settar á undirstöðurnar og skrúfaðar niður.

Þessi áfangi mun ekki klárast fyrr en á næsta ári. Köfunarþjónustan ehf. mun taka að sér framhaldið, að setja niður meira af samskonar grindum, halda áfram þar sem ÍAV hf. hætta, og byrjar sú framkvæmd innan skamms.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]