Grillveisla á Ráðhústorgi á morgun

Wordpress Magazine Theme

Á morgun kl. 16.00 býður Sparisjóður Siglufjarðar til grillveislu á
Ráðhústorgi, eins og verið hefur siður þar á bæ undanfarin 10 ár eða
svo, og vonast til að sem allra flestir íbúanna og að sjálfsögðu gestir
líka komi og fái sér bita og eigi þar góðan dag saman. Til þessa hefur verið reynt að tengja uppákomuna fyrsta degi
Þjóðlagahátíðar en í fyrra og núna gekk það ekki sökum veðurs. Spáin er
hins vegar ágæt fyrir morgundaginn. Gunnar Smári Helgason mun sjá um að
tónlistin hljómi eins og hún á að gera.

Og fyrst sparisjóðurinn er hér til umfjöllunar er rétt og skylt að minna á
að hann er elsta starfandi peningastofnun á Íslandi, var hleypt af
stokkunum í byrjun árs 1873. Stofnendur voru átta talsins: Snorri
Pálsson, faktor, séra Jón Auðunn Blöndal, þá verslunarstjóri í
Grafarósi, Sveinn Sveinsson, óðalsbóndi í Haganesi, Einar Baldvin
Guðmundsson, óðalsbóndi á Hraunum í Fljótum, Páll Þorvaldsson,
óðalsbóndi á Dalabæ, Jón Jónsson, óðalsbóndi á Siglunesi, og að endingu
tveir heimamenn aðrir, Jóhann Jónsson, óðalsbóndi og hreppstjóri, búandi
í Höfn, og séra Tómas Bjarnarson, þáverandi sóknarprestur. Þeir yngstu í
hópnum voru rúmlega þrítugir að aldri, hinir elstu rúmlega sextugir.

Unnið var að málinu árið 1872, lög samin og annað þess háttar, og 1.
janúar 1873 opnaði hann, undir nafninu Sparnaðarsjóðurinn í Siglufirði.
Fyrstu innlagnir eru þó ekki dagsettar fyrr en 11. janúar. Þær eru frá
alls 15 einstaklingum, þar sem fyrst er Kristrún Friðbjörnsdóttir á
Hraunum, þá skráð ?vinnukona? á 17. ári.

Sparisjóður Siglufjarðar er því (a.m.k.) 126
árum eldri en MP Banki hf., sem hóf grunnstarfsemi 11. maí 1999, hét þá MP verðbréf, fékk fjárfestingabankaleyfi 2003 og fullt viðskiptabankaleyfi 2008, og hefur verið að auglýsa sig sem elsta banka í
landinu.

Haha.

Nokkrar svona verða á boðstólum á morgun á Ráðhústorgi kl. 16.00.


Mynd og texti:
Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is